Birkibukkur (Saperda scalaris)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, nema í allra nyrstu héruðum Skandinavíuskagans, N-Afríka og austur eftir Síberíu.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið; Reykjavík, Kópavogur, Garðabær.

Lífshættir

Laufskógar eru kjörlendi birkibukks. Lirfurnar alast upp í lauftrjám, innan við börk þeirra eða í berkinum sjálfum. Hann kýs einkum birkitegundir (Betula), en aðrar trjátegundir sem duga einnig eru t.d. eikur (Quercus), villiepli (Malus sylvestris), reynir (Sorbus acuparia), selja (Salix caprea) og elritegundir (Alnus). Fullvaxin lirfa grefur sér holrými yst í viðnum eða í berki trjáa með þykkan börk (t.d. eik) og púpa sig þar um miðjan maí. Uppvöxtur lirfa tekur eitt til tvö ár. Fullorðnar bjöllur finnast svo frá lokum maí og fram í byrjun júlí. Þær eru einkum á ferli að nóttu til, naga blöð trjánna og sækja auk þess í blóm.

Almennt

Birkibukkur er fágætur flækingur hér á landi. Hann fannst fyrst í lok maí 2000 í Kassagerðinni í Reykjavík ásamt fleiri trjábukkum sem bárust með vörusendingum. Næsta eintak barst úr iðnaðarhverfi í Garðabæ í mars 2003. Síðasta tilvikinu, eintök sem fundust í Kópavogi 2011, fylgir áhugaverð saga. Atvik voru þau að haustið 2010 tók ferðamaður með Norrönu með sér trjádrumba af eplatré frá Svíþjóð. Drumbarnir voru með berki og ætlaðir til útskurðar. Innflutningurinn var stöðvaður við komuna til landsins, en síðan voru drumbarnir afhentir eigandanum þegar þeir höfðu verið barkhreinsaðir að einhverju leyti. Þeir voru svo hafðir í kaldri geymslu yfir veturinn, í sendiferðabíl. Síðan þegar farið var að hluta drumbana í sundur kom í ljós, að í þeim voru óvæntar lífverur. Þann 4. júlí skriðu svo á þeim tvær einkar skrautlegar bjöllur, sem voru færðar Náttúrufræðistofnun daginn eftir.

Þetta dæmi sýnir glögglega hversu óráðlegt er að stunda innflutning af þessu tagi. Það er reyndar alvanalegt að trjábukkar af ýmsum tegundum berist með þessum hætti til landsins, en fæstar tegundanna eiga möguleika á að setjast hér að. Annað kann að gilda um birkibukk. Hann er harðger tegund og hér vaxa margar tegundir lauftrjáa sem geta nýst honum til uppeldis, bæði í görðum okkar og villtri náttúru.

Birkibukkur er auðþekkt tegund en margar tegundir trjábukka, sem hingað hafa borist, verða ekki auðveldlega nafngreindar enda stundum langt að komnar. Hann er með sívalan bol og er einkar skrautlegur á lit með sitt einstaka gulgræna og svarta mynstur á öllum bolnum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Ehnström, B. 2007. Skalbaggar: Långhorningar. Coleoptera: Cerambycidae. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Svenska artprojektet, Artdatabanken, Uppsala. 302 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 20. júlí 2011.

Biota

Tegund (Species)
Birkibukkur (Saperda scalaris)