Rauðbukkur (Pyrrhidium sanguineum)

Útbreiðsla

Evrópa, norður í sunnanverða Skandinavíu, N-Afríka, Tyrkland, Sýrland, Íran.

Ísland: Fágætur slæðingur á höfuðborgarsvæðinu, einnig í Holtum og á Akureyri.

Lífshættir

Laufskógar eru kjörlendi rauðbukks. Lirfur alast upp undir og í berki á lifandi og dauðum lauftrjám, t.d. eik (Quercus), beyki (Fagus), álmi (Ulmus) og eplatrjám (Malus). Í Svíþjóð finnst tegundin einkum á eik og finnst gjarnan í trjám sem hafa fallið og drepist og í restum af trjám sem liggja eftir skógarhögg. Lirfur vaxa upp á einu til tveim árum.

Almennt

Rauðbukkur hefur borist til Íslands með timburvörum, einkum með viði sem klæddur er berki. Koma arinkubbar þar gjarnan við sögu. Hann fannst fyrst í Reykjavíki um 1950 og næst í Holtum á Suðurlandi 1980. Önnur tilvik urðu öll eftir síðustu aldamót.

Árið 2007 bárust Náttúrufræðistofnun 10 eintökaf höfuðborgarsvæðinu dagana 29. janúar til 6. febrúar og 25. mars sem bendir til fluttur hafi verið til landsins sýktur viðarfarmur af einhverju tagi. Svipað atvik endurtók sig í byrjun árs 2009. Tveir rauðbukkar fundust á Akureyri 19. janúar og höfðu borist þangað með innfluttum arinkubbum frá Rúmfatalagernum. Þeir voru sendir til Náttúrufræðistofnunar. Þann 28. janúar barst mynd af rauðbukk sem fannst í Reykjavík og hafði verið fargað. Annað eintak barst svo frá sama aðila 14. febrúar, en sá hafði þá fundið um 5 bjöllur hjá sér frá því snemma í janúar. Þær tengdust einnig arinkubbum frá Rúmfatalagernum. Næst fannst rauðbukkur í Hafnarfirði 11. febrúar það ár. Innfluttir arinkubbar með berki skýrðu augljóslega þessa innrás. Þann 24. mars 2011 varð vart við marga rauðbukka á trésmíðaverkstæði á Akureyri eftir að eik með berki hafði verið tekin í hús. Smíðaviðurinn var fluttur til landsins haustið 2010.

Rauðbukkur er auðþekktur frá öðrum trjábukkum á afar sérstökum og fallegum rauðum lit á hálsskildi og skjaldvængjum. Kviðurinn er hins vegar svartur, einnig fálmarar og fætur. Hann er frekar flatvaxinn.

Útbreiðslukort

Heimildir

Ehnström, B. 2007. Skalbaggar: Långhorningar. Coleoptera: Cerambycidae. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Svenska artprojektet, Artdatabanken, Uppsala. 302 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 19. mars 2013

Biota

Tegund (Species)
Rauðbukkur (Pyrrhidium sanguineum)