Teppagæra (Anthrenus verbasci)

Teppagæra - Anthrenus verbasci
Mynd: Erling Ólafsson
Teppagæra. 2,8 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa, Asía, N-Afríka og N-Ameríka, eingöngu innanhúss á norðlægari slóðunum.

Ísland: Á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði, einnig á Akureyri.

Lífshættir

Teppagæra finnst alfarið innanhúss eins og aðrir ættingjar hennar hér á landi. Fullorðnar bjöllur hafa fundist á ferli allt árið en tilvikin eru fá til að meta mikilvægasta athafnatímann. Þó virðast bjöllurnar helst birtast á vorin. Á öðrum Norðurlöndum er algengast að þær skríði úr púpum á vorin og snemma sumars. Bjöllurnar makast strax eftir að þær skríða úr púpum, hefja varp nokkrum dögum síðar og verpa í allt að tvær vikur. Karldýrin eru tiltölulega skammlíf og ná vart nema þrem vikum en kvendýrin geta lifað tvöfalt lengur. Þau verpa allt að 100 eggjum, einu í einu. Eggin klekjast oftast á tveim til þrem vikum, fer eftir aðstæðum, hita og rakastigi. Kjörhitinn er 29°C. Lirfurnar vaxa með mismörgum hamskiptum eftir fæðuframboði. Kjörfæðu finna þær t.d. í fuglshreiðrum og geitungabúum og nærast þar á fiðri, hárum og dauðum skordýrum. Uppvaxtartíminn er afar mislangur eftir aðstæðum, oftast frá 220 til 320 dagar en mun lengri við óhagstæð skilyrði. Lirfurnar púpa sig undir vor og púpustigið getur varað allt að mánuð.

Teppagæra þykir mikill skaðvaldur í söfnum í Evrópu. Lirfurnar gera sér nefnilega sitthvað að góðu umfram það sem þegar hefur verið tekið fram. Heimildir eru um skemmdir á ullarvörum, leðri, gærum, fiðri, hárum, korni, fiskimjöli og ýmsu öðru bæði úr jurta- og dýraríki. Bómull, líni og jafnvel óhreinum gerviefnum er einnig hætt.

Almennt

Teppagæra er enn sem komið er fágæt hér á landi, en þá sjaldan hún kemur upp getur hún birst í umtalsverðum fjölda. Hún er vel fleyg og sækir gjarnan út í glugga. Tegundin fannst hér fyrst í Reykjavík 1999 og hefur fundist af og til síðan á höfuðborgarsvæðinu, svo og á Akureyri vorið 2010. Hér er vísað til fullorðinna bjallna, en auk þess hafa lirfur af ættkvíslinni Anthrenus fundist af og til en ekki verið greindar til tegunda. Sennilega er þó í flestum tilvikum um teppagæru að ræða. Í einu tilviki var talið að bjöllurnar hefðu borist með búslóð frá Bandaríkjunum og í öðru með farangri frá Danmörku. Án efa er tegundin orðin hér landlæg í híbýlum okkar og líklega mun hennar verða meira vart í framtíðinni.

Teppagæra er litskrúðug og óneitanlega falleg bjalla, alsett ryðrauðum og hvítum hreisturflögum sem strjúkast auðveldlega af og myndast þá svartir blettir þar sem glyttir í svarta kítínskelina undir. Það eykur á skrúðið.

Teppagæra (Anthrenus verbasci) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Teppagæra (Anthrenus verbasci) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Fauna Europaea. Anthrenus verbasci. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=413742 [skoðað 30.3.2011]

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |