Feldgæra (Attagenus smirnovi)

Feldbjalla - Attagenus smirnovi
Mynd: Erling Ólafsson
Feldgæra. 3,5 mm. ©EÓ
Feldbjalla - Attagenus smirnovi
Mynd: Erling Ólafsson
Feldgæra, lirfa. 6 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Talin eiga uppruna að rekja til Afríku (Kenýa) og fór að finnast innanhúss í N-Evrópu á seinni hluta 20. aldar; Rússland, Bretland, Danmörk, Svíþjóð.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið (Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður), einnig Akranes, Fellabær og Fáskrúðsfjörður.

Lífshættir

Innanhúss. Fullorðnar bjöllur eru á ferli allt árið, þó mest sé um þær á vorin, og geta lifað allt að 20 daga. Kvendýrin verpa allt að 90 eggjum. Við kjörhita (24°C) og þokkalegan raka klekjast eggin á um 10 dögum, lirfur ná púpustigi á þrem mánuðum og púpur klekjast á um 10 dögum. Við lægri hita tekur ferlið allt mun lengri tíma. Lirfurnar éta flest tilfallandi dautt úr dýra- og plönturíkinu, fræ og kornmat, plöntusöfn, dauð skordýr, þornað kjötmeti sem til fellur, skinn og pelsa, fiður og ull. Feldgæra getur því reynst skaðleg.

Almennt

Í Evrópu fannst feldgæra fyrst í Rússlandi 1961 og hefur verið á hraðri útbreiðslu í N-Evrópu, þar sem hún er orðin algengt meindýr í upphituðum húsum. Hún hafði náð til Íslands árið 1992 og varð þá staðfest í tveim húsum í Reykjavík. Síðan hefur henni farið mjög fjölgandi í húsum á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess fannst feldgæra á Fáskrúðsfirði 1999 en það er eina þekkta tilvikið úti á landsbyggðinni.

Feldgæra er með svartan haus og hálsskjöld en skjaldvængir eru einlitir, rauðbrúnir. Yfirborðið allt með stuttum, gulum hárum. Fálmarar eru sérstæðir, endaliðurinn langur og flatur, jafnlangur hinum liðunum til samans. Lirfan er dökkbrún að ofan en ljós að neðan og er liðskiptingin mjög áberandi, þar sem kítínplöturnar eru miklu dekkri en mjúku liðamótin. Plöturnar eru alsettar burstum sem vita aftur, lengstir á afturjaðrinum og langir, útstæðir burstar á hliðunum. Á afturenda er langur hárabrúskur.

Feldgæra (Attagenus smirnovi) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Feldgæra (Attagenus smirnovi) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |