Pelsgæra (Attagenus woodroffei)

Pelsgæra - Attagenus woodroffei
Mynd: Erling Ólafsson
Pelsgæra. 6 mm. ©EÓ
Pelsgæra - Attagenus woodroffei
Mynd: Erling Ólafsson
Pelsgæra, lirfur. 8 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Enn er útbreiðslan illa þekkt. Tegundin kann að vera upprunnin í Indlandi og er nú þekkt í Evrópu frá Norðurlöndunum öllum, Þýskalandi og Rússlandi.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið, Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður; og Lýsuhóll á Snæfellsnesi.

Lífshættir

Pelsgæra heldur sig einungis innanhúss eins og annars staðar í Evrópu. Fullorðnar bjöllur finnast allt árið en þær nærast ekki. Tegundin er frekar hitakær, kjörhiti 25-30°C. Egg ná ekki að klekjast undir 15°C. Þau klekjast á tveim til þrem vikum við stofuhita en á aðeins einni viku við 30°C. Lirfurnar nærast fyrst og fremst á fæðu úr dýraríkinu. Hár og fiður (keratín) dugar þeim ekki nema fjölbreyttari fæða, kjötmeti, standi jafnframt til boða, en þegar svo er geta lirfurnar valdið skaða á náttúrugripum, skinnavöru og prjónlesi. Við góðan stofuhita og næga fæðu geta lirfur náð fullum vexti á 3-4 mánuðum en þraukað í allt að tvö ár við verri kost. Öll þroskastig drepast á tveim vikum við 2°C. Pelsgæra getur náð að þroska nokkrar kynslóðir á ári við kjöraðstæður.

Almennt

Pelsgæra er tiltölulega nýtt meindýr í húsum á Norðurlöndum og var henni lengstum ruglað saman við aðra náskylda tegund. Það var ekki fyrr en 1979 að í ljós kom að hér var um sjálfstæða tegund að ræða. Hennar varð vart í híbýlum í Svíþjóð á sjötta áratug síðustu aldar, þá getið undir öðru fræðiheiti, og síðar á öðrum Norðurlöndum. Þar hefur henni fjölgað verulega síðan. Hér fannst hún fyrst árið 1994 í tveim húsum í Reykjavík, svo síðar í Hafnarfirði (1999) og Kópavogi (2009). Nýlega fannst hún einnig á Snæfellsnesi (2008). Ekki verður séð að pelsgæru vegni vel í híbýlum okkar enn sem komið er en hún verður þó að teljast viðloðandi. Víst má telja að feldgæra hafi mætt hingað til lands til að búa með okkur áfram. Hún hefur fulla burði til að verða skaðvaldur á heimilum.

Pelsgæra er auðþekkt frá skyldum tegundum. Gærur eru tvenns konar, annars vegar langar (t.d. nágæra), hins vegar minni og kubbslegri, en pelsgæra er stærst þeirra síðarnefndu. Hún er dökk á lit með ljósara belti yfir aðfellda skjaldvængina framan til. Bjöllurnar eru fleygar. Lirfurnar eru líkar lirfum feldgæru, langar, mjóslegnar og sveigja sig með liprum, snörum hreyfingum þegar þær skríða, dökkar með stinnum, svörtum burstum á hliðum og langan hárbrúsk á afturenda sem auðveldlega slitnar af. Lirfur þessara tveggja náskyldu tegunda verða aðgreindar með smásjárskoðun.

Pelsgæra (Attagenus woodroffei) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Pelsgæra (Attagenus woodroffei) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Fauna Europaea. Attagenus woodroffei. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=413617.

Halstead, D.G.H. & M. Green 1979. Attagenus woodroffei sp.n., previously confused with Attagenus fasciatus (Thunberg) (Coleoptera, Dermestidae). Notulae Entomologicae 59: 97–104.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |