Skreiðargæra (Dermestes maculatus)

Skreiðargæra - Dermestes maculatus
Mynd: Erling Ólafsson

Skreiðargæra (Dermestes maculatus). 7 mm. ©EÓ

Skreiðargæra - Dermestes maculatus
Mynd: Erling Ólafsson

Skreiðargæra (Dermestes maculatus), séð undir bolinn. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Útbreidd um heim allan. Á Norðurlöndum finnst tegundin einungis innanhúss.

Ísland: Slæðingur í Reykjavík, Kópavogi, Ólafsvík og Eskifirði.

Lífshættir

Á norðlægum slóðum lifir skreiðargæra einvörðungu innanhúss og nærist alfarið á þurrkaðri fæðu úr dýraríkinu, uppþornuðu holdi af öllu tagi. Á það bæði við um fullorðin dýr og lirfur. Bjöllurnar fara að makast þegar þær hafa harðnað fyllilega fimm dögum eftir að þær skríða úr púpum. Til þess þarf hitinn þó að vera 16–18°C. Mökun fer einkum fram á vorin og getur mökunartímabilið staðið í allt að þrjá mánuði. Varp hefst svo allt að hálfum mánuði eftir mökun og kvendýr halda áfram að verpa yfir nokkurra mánaða tímabil. Þau þurfa þó að hafa aðgang að vatni til að geta verpt. Bjöllurnar halda sig í vari á skuggsælum stöðum á meðan varp á sér stað en skríða fram í dagsljósið þegar varptímanum líkur. Einstök fullorðin bjalla getur lifað í tvo til þrjá mánuði.

Eggjum verpa kvendýr í klösum með allt frá fáeinum eggjum og upp í 20 eggjum í klasa. Eggjaframleiðslan er afar breytileg, en 800 egg úr einu kvendýri hafa verið staðfest. Eggin klekjast á 3–12 dögum. Lirfurnar taka strax hraustlega til matar síns og sýna mikla græðgi. Þær éta jafnvel varnarlausar púpur sömu tegundar og eiga það einnig sjálfar á hættu að verða bjöllunum að bráð. Þarna er því mikil átveisla í gangi og engu eirt. Lirfustigið varir eftir aðstæðum, hitastigi og fæðuframboði, allt frá einum mánuði til tveggja ára. Við 23°C og 40% raka tekur uppvöxturinn um 44 daga. Nokkrum dögum áður en lirfur púpa sig yfirgefa þær matarbúrið sitt og leita uppi eitthvert fast efni, t.d. við og einangrun, til að bora sig inn í. Geta þær skriðið allt að tíu metra í leit að heppilegum stað. Þegar þær hafa komið sér fyrir loka þær opinu með sagi. Púpustigið varir í eina til tvær vikur en yfir mánuð ef hitastig er óhagstætt. Við bestu skilyrði geta komið fram nokkrar kynslóðir á ári og fjöldinn orðið gífurlegur á skömmum tíma.

Skreiðargæra getur reynst hinn mesti skaðvaldur bæði í matvælaframleiðslu og í söfnum. Ekki einungis þurrir dýravefir eru í hættu heldur einnig tré, korkur, einangrunarplast, bækur og hvaðeina sem lirfurnar geta borað sig í til að púpast. Hún er einnig þekktur skaðvaldur í silkirækt í Asíu með því að bora sig inn í púpur silkifiðrildanna og éta þær. Skreiðargæru, og fleiri skyldar tegundir, má einnig virkja til gagns. Nýta má græðgina til að láta kvikindin hreinsa á undraskömmum tíma hold af beinum sem verið er að búa til varðveislu í söfnum. Þá hefur tegundin verið notuð til að áætla dánartíma mannslíka sem fundist hafa, t.d. á vettvangi glæpa og sjálfsmorða. Þroskastig tengt hitastigi gerir það kleift að marka tímakvarða til lausnar slíkra mála.

Almennt

Skreiðargærur fundust fyrst í Reykjavík í apríl 1986 hjá fiskvinnslufyrirtæki, sem hafði flutt út skreið til Kamerún og fengið endursend sýni af henni fimm til sex mánuðum síðar vegna skaðvalda í vörunni. Skaðvaldarnir voru sem sagt skreiðargærur og reyndi kaupandinn að saka seljandann um að hafa sent honum skemmda vöru. Það lá þó nokkuð ljóst fyrir að skreiðin hafði sýkst, þar sem hún lá í geymslu mánuðum saman suður í Kamerún. Ekkert benti þá til þess að skreiðargæra væri landlæg hér á Íslandi. Það er athyglisvert að sagan endurtók sig rúmu ári síðar. Haustið 2002 fundust nokkrar skreiðarbjöllur lifandi í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi, en engin skýring fylgdi því atviki og ekki var gefið upp hvert húsnæðið var. Að síðustu fundust óþekktar fleskbjöllulirfur á gólfum í fiskvinnslufyrirtæki í Ólafsvík í byrjun árs 2011 og voru þær sendar til Náttúrustofu Kópavogs. Þar náðu þær að þroskast áfram og klekjast úr púpum. Kom þá í ljós að um skreiðargærur var að ræða. Á gólfum þar sem lirfurnar fundust var mylsna af harðfiski og beinagörðum. Ekki var vitað hvert upphaf þess máls var, en fyrir jólin hafði fyrirtækið flutt inn frá Indlandi pakkningar fyrir skreið. Í þeim vörukaupum kann skýringin að leynast. Ekki hefur fengist staðfesting á því að skreiðarbjalla sé landlæg hér á landi.

Skreiðargæra er með stærri fleskbjöllutegundum sem hér hafa fundist en breytileg að stærð. Bjöllurnar frá Ólafsvík voru t.d. mun minni, þar sem lirfurnar voru ekki aldar á réttum kosti á lokaskeiði uppvaxtarins. Skreiðargæra er löng, með aðeins útdregnar hliðar, og mjókkar aftur á ávalan afturendann. Á endum skjaldvængja er lítill broddur, einn á hvorum væng, sem einkennir tegundina. Á efra borði er skreiðargæra svört á lit. Höfuð er hvíthært, einnig framrönd hálsskjaldar og hliðar. Á hliðunum eru hárin lengst og vita þau upp og inn á skjöldinn. Kviðurinn allur er einnig þakinn hvítum hárum. Miðbik hálsskjaldar og skjaldvængir eru svartir með stöku hvítum hárum.

Skreiðargæra (Dermestes maculatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skreiðargæra (Dermestes maculatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Featured Creatures. Hide beetle http://entomology.ifas.ufl.edu/creatures/misc/beetles/hide_beetle.htm [skoðað 6.4.2011]

Wikipedia. Dermestidae http://en.wikipedia.org/wiki/Dermestidae [skoðað 6.4.2011]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |