Lækjaklukka (Hydroporus nigrita)

Útbreiðsla

Evrópa, einkum Mið- og Norður-Evrópa, fjalllendi í álfunni sunnanverðri, austur til Kazakhstan og Turkestan í Asíu.

Ísland: Um land allt.

Lífshættir

Lækjaklukka finnst í margskonar vötnum jafnt á láglendi sem hálendi, allt frá stórum vötnum niður í smápolla, lygnum og hægrennandi lækjum og ám. Hún finnst í vatni allt frá nokkrum gráðum upp í um 32°C. Á hálendinu kýs hún volgar laugar. Fullorðnar bjöllur finnast allan ársins hring en fullorðin dýr brúa veturinn. Lirfur alast upp fyrst og fremst í grunnum tjörnum og pollum sem sumarsólin nær að hita, en þær þroskast nokkuð hratt á heitasta tíma sumars og ná fullum vexti í júlí til ágúst. Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur eru rándýr í vötnum.

Almennt

Þessi litla en kvika vatnabjalla nær stundum miklum fjölda í grunnum tjörnum og pollum. Þar má sjá þær sem litla iðandi svarta depla syndandi þvers og kruss með skrykkjóttum sundtökum, stingandi afturendanum af og til upp í yfirborðið til að sækja loftbólu.

Lækjaklukka (3 mm) er minnst vatnabjallnanna íslensku. Hún er líkust dvergvaxinni brunnklukku (Agabus bipustulatus), egglaga, alsvört á lit, gljáandi, með rauðleita fætur og fyrstu liði fálmara. Afturfætur aðlagaðir sundfætur en ekki eins hærðir og árafætur brunnklukku.

Útbreiðslukort

Heimildir

Gísli Már Gíslason 1977. Íslenskar vatnabjöllur. Náttúrufræðingurinn 47: 154–159.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Nilsson, A.N. & M. Holmen 1995. The aquatic Adephaga (Voleoptera) of Fennoscandia and Denmark. II. Dytiscidae. Fauna Entomologica Scandinavica. Vol.32. E.J. Brill, Leiden, New York, Köln. 192 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 9. maí 2017.

Biota

Tegund (Species)
Lækjaklukka (Hydroporus nigrita)