Drumbavinur (Aridius nodifer)

Útbreiðsla

Um heim allan.

Ísland: Suðvesturland; Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Kollafjörður.

Lífshættir

Drumbavinur lifir á sveppþráðum og rotnandi plöntuleifum í sagga, bæði fullorðnar bjöllur og lirfur. Hann finnst við fjölbreytilegar aðstæður, í húsum þar sem fúkki leynist en í náttúrulegum heimkynnum erlendis einnig í skógum, í sprungnum trjáberki gamalla trjáa og dauðum, rotnandi trjábolum og drumbum sem standa dauðir eða liggja í skógarbotnum. Annars er mest lítið vitað um lífsferilinn sjálfan.

Almennt

Drumbavinur hefur sjaldan gert vart við sig hér á landi en að öllum líkindum er hann samt landlægur. Fyrsta tilvik er frá janúar 1989. Fyrirtæki í Kópavogi hafði flutt inn steinhellur sem fylgdu mygluð fræ og voru í þeim bjöllur af þessari tegund. Í október 2002 fundust nokkur eintök í raka í baðherbergi íbúðar í Hafnarfirði. Þriðja tilfellið er tvímælalaust áhugaverðast. Þar var um að ræða eintak sem kom í fiðrildagildru í trjáræktinni á Mógilsá í Kollafirði um mánaðamótin ágúst/september 2011. Það gæti verið vísbending um að drumbavinur geti verið sestur að hér utanhúss við skilyrði sem við höfum skapað honum með trjárækt. Það er nefnilega fullvíst að hér á eftir að mótast sérstök smádýrafána í skógarlundum eftir því sem þeir verða eldri og náttúrulegri og eftir því sem smádýrategundir berast til landsins af okkar manna völdum. Síðast fannst svo drumbavinur á eldhúsbekk á Náttúrufræðistofnun Íslands í október 2012 og hafði hann að öllum líkindum borist þangað með matvælum í mötuneytið.

Drumbavinur er agnarsmá bjalla eins og ættingjar hans aðrir og líkur þeim í sköpulagi. Hann er ýmist gulbrúnn, rauðbrúnn eða svarbrúnn á lit. Tiltölulega mjósleginn að framan, þ.e. yfir hálsskjöldinn, en breiður yfir skjaldvængina og eru hliðar þeirra ávalar. Skelin er mjög mynstruð og hrjúf, tveir upphleyptir kilir langs eftir hálsskildi sem er inndreginn aftan við miðju og hliðar hans aðeins uppsveigðar framan til og með afgerandi framhornum. Á skjaldvængjum eru grófar upphleyptar rendur og punktalínur, auk þess sem yfirborðið er mjög óslétt, bylgjótt og hnúðótt, eins og fræðiheitið nodifer gefur í skyn (sá sem ber hnúða).

Útbreiðslukort

Heimildir

Fauna Europaea. Aridius nodifer. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=398010 [skoðað 10.10.2012]

The Tasmanian Forest Insect Collection. Aridius nodifer. http://www.tfic.net.au/SpeciesPages/Aridius nodifer.html [skoðað 10.10.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 10. október 2012.

Biota

Tegund (Species)
Drumbavinur (Aridius nodifer)