Varmaperla (Scatella tenuicosta thermarum)

Útbreiðsla

Óvissa ríkir um útbreiðslu á grunnformi varmaperlu, þ.e. laugaperlu (Scatella tenuicosta), vegna ruglings við skyldar tegundir í gegnum tíðina, einkum við bakkaperlu (Scatella stagnalis). Laugaperla er þó sennilega almennt útbreidd á norðurhveli, hefur verið staðfest frá mörgum Evrópulöndum frá Miðjarðarhafi til N-Noregs, einnig frá Tyrklandi, N-Afríku (Túnis), Grænlandi og N-Ameríku (Oregon). Hitakært form af laugaperlu, þ.e. varmaperla (S. t. f. thermarum), hefur einungis verið staðfest frá Íslandi.

Ísland: Grunnform tegundarinnar (laugaperla) finnst um land allt. Hitakæra formið (varmaperla) hefur fundist við jarðhita í öllum landshlutum, jafnt á láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Varmaperla finnst einungis við jarðhita, í laugum á hitabilinu 28-42°C og við heit gufuaugu. Lirfurnar nærast á þörungum, blágerlum og öðrum hitakærum gerlum sem oft mynda fljótandi skán með innibyrgðum loftbólum á yfirborði lauganna. Oft situr mikill fjöldi flugna á flotskáninni og lirfur skríða grunnt inni í henni. Lirfurnar þurfa nefnilega að ná til lofts á yfirborðinu. Því var haldið fram áður fyrr að lirfurnar gætu lifað við hitastig lauga allt upp í 55°C en það stenst ekki að öllu leyti. Vissulega getur uppstreymi laugar mælst með svo háum hita en í flotskán með lirfum er loftkæling og hiti þar lægri. Ef skáninni er sökkt í meiri hita drepast lirfurnar. Flugur nærast á sömu fæðu og lirfur og má gjarnan sjá þær skrapa fæðuna upp í sig með sograna sínum. Það er ljóst að varmaperla skilar allnokkrum kynslóðum á ári því sumarið hjá henni er langt í báða enda á jarðhitasvæðum. Tíminn sem hún hefur til að athafna sig ræðst fyrst og fremst af birtumagni sem stjórnar framvindunni í þörunga- og gerlagróðrinum.

Almennt

Varmaperla var skilgreind árið 1930 sem sjálfstæð tegund í heitum laugum hér á landi. Síðar komu upp efasemdir um þann gjörning og var jafnvel talið að um væri að ræða afbrigði af bakkaperlu (S. stagnalis). Það var á tímum sem fræðimönnum var það illa lagið að aðgreina bakkaperlu og laugaperlu. Síðari rannsókn leiddi í ljós að varmaperla væri hitakært afbrigði af laugaperlu. Reyndar hefur málið ekki reynst vera svo einfalt því afbrigði varmaperlu eru ótalmörg. Svo virðist sem þau þróist út frá grunnformi laugaperlunnar sjálfstætt á hverjum jarðhitastað. Eitt einkenna varmaperlu eru styttri vængir en á grunnforminu sem dregur úr dreifingarmætti formsins. Varmaperlur dreifast því ekki á milli aðskilinna jarðhitasvæða. Þegar heitt vatn berst upp á yfirborð, t.d. vegna borana, þar sem jarðhiti var ekki fyrir á yfirborði, eru laugaperlur fljótar að setjast þar að og aðlögunin hefst þegar í stað. Fyrir eldgosið sem hófst á Heimaey í janúar 1973 voru varmaperlur óþekktar á eynni. Við athugun sumarið 1976 kom í ljós að perluflugur höfðu sest að í gufuaugum í nýja hrauninu og reyndust þær vera staðbundið form af varmaperlum, ólíkt öðrum formum sem skoðuð höfðu verið. Aðlögun gengur því augljóslega hratt fyrir sig. Laugaperla virðis mjög leitandi tegund. Auk þess að sækja í jarðhita leitar hún gjarnan inn í gróðurhús, ekki bara hérlendis heldur einnig í nágrannalöndum okkar.

Í perluflugnaættinni (Ephydridae) eru margar tegundir sem sýna undraverða aðlögunarhæfileika og hafa náð að aðlagast aðstæðum sem þættu öllu jöfnu ólíklegar til að vera óbyggilegar skordýrum, s.s. ofursaltar tjarnir, olíupollar við olíubora, niðurföll almenningssalerna í París (!) og svo jarðhiti víðar í heiminum t.d. í Japan og á Nýja-Sjálandi. Varmaperla telst óneitanlega með áhugaverðari fyrirbærum í íslenskri smádýrafánu, enda séríslensk og eitt sérkenna jarðhitasvæða landsins.

Annars er fána jarðhitasvæðanna tiltölulega fábreytt, þ.e. þegar hitastig fer yfir ákveðin mörg. Fáar tegundir þola háan hita en þær sem það gera mynda áhugaverð samfélög. Þar eru t.d. rándýr sem byggja afkomu sína að miklu leyti á varmaperlunni. Þarna á laugakönguló (Pirata piraticus) kjörlendi á laugabökkunum. Það má sjá hana stökkva út á flotskánina til að veiða flugur. Þarna er líka spaðafluga (Lispe consanguinea) sem auk þess að veiða fullorðnar varmaperlur gæðir sér á lirfum hennar sem hún dregur upp úr flotskáninni.

Varmaperla er smávaxinn og væri lítt eftirtektarverð ef ekki kæmi til allur fjöldinn sem er samankominn á laugunum. Stundum er þéttleikinn svo mikill á flotskáninni að sindrar af vængjunum líkt og perlum. Annars eru flugurnar einlitar brúnar og vængir með mismörgum hvítum dílum. Grunnform laugaperlu er með fimm díla á væng en þegar varmaperla þróast styttast vængirnir og dökkna, dílar dofna og hverfa jafnvel alfarið á þeim sem lengst ganga. Oft verða þó tveir dílar eftir sýnilegir. Þegar styggð kemst að flugunum þyrlast upp flugnager sem þó er afar fljótt að koma sér aftur niður á jörðina og þá beint aftur í hitann. Það er mjög sjaldgæft að rekast á flugur þó ekki sé nema einn til tvo metra frá laugunum.

Það er vel þess virði að liggja á laugarbakka og fylgjast með samfélaginu á skáninni. Mökun er karlflugunum mjög hugleikin. Vonbiðlarnir sýna stúlkunum mikinn áhuga og hafa þróað með sér athyglisverðan dans með blakandi vængjum til að vekja athygli á glæsileik sínum. Yfirleitt er þó lítinn áhuga að sjá hjá stúlkunum. Af og til skýst óvættur í líki laugaköngulóar eða spaðaflugu inn í friðsældina.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Andersson, H. 1967. Faunistic, ecological and taxonomic notes on Icelandic Diptera. Opusc. Ent. 32: 101–120.

Collin, J.E. 1930. Some new species of the dipterous genus Scatella Dsv. and the differentiation of Stictoscatella gen. nov. (Ephydridae). Ent. Mon. Mag. 66: 133–139.

Miyagi, I. 1977. Ephydridae (Insecta: Diptera). Fauna Japonica. Tokyo. 113 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Olafsson, E. 1992. Taxonomic revision of western Palaearctic species of the genera Scatella R.-D. and Lamproscatella Hendel, and studies on their phylogenetic positions within the subdfamily Ephydrinae (Diptera, Ephydridae). Entomologica scandinavica Suppl. 37: 1–100.

Tuxen, S.L. 1934. The hot springs of Iceland, their animal communities and their zoogeographical significance. Zoology of Iceland I, 11: 1-216. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 216 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 13. júní 2012

Biota

Tegund (Species)
Varmaperla (Scatella tenuicosta thermarum)