Blaðfluga (Lyciella rorida)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa og vestanverð Asía, N-Ameríka.

Ísland: Fundin frá höfuðborgarsvæðinu norður að Esjurótum og Hvanneyri í Borgarfirði, austur um Suðurlandsundirlendið til Skóga undir Eyjafjöllum, einnig í Skaftártungu, Hornafirði og Neskaupstað.

Lífshættir

Blaðfluga heldur sig fyrst og fremst í skuggsælu gróðurþykkni í görðum og byggð eða á öðrum áhrifasvæðum okkar manna, s.s. trjárækt með ríkulegum undirgróðri og í lúpínubreiðum. Flugurnar eru oftast lítt áberandi og hafa hægt um sig inni í þykkninu en þyrlast upp ef styggð kemur að. Þær nærast á sveppþráðum á laufblöðum en leita aldrei í blóm. Blaðfluga þolir kulda ágætlega og kemur helst út úr fylgsnum sínum á svölum síðsumarkvöldum. Þá geta flugurnar gulu laðast að ljósi innan við opna glugga. Flugurnar fara að sjást í júní, eru algengastar síðsumars og á ferli langt fram á haustið. Lirfurnar lifa á rotnandi plöntuleifum í jarðvegi og safnhaugum svo og á gerlum og sveppþráðum í rotmassanum. Enginn skaði er af blaðflugum.

Almennt

Blaðflugan er nýlegur landnemi hér á landi. Hún fannst fyrst árið 2001 á takmörkuðu svæði í Suðurhlíðunum í Reykjavík, í nágrenni Fossvogskirkjugarðs. Á næstu árum fjölgaði henni hratt og útbreiðslusvæðið stækkaði með hverju árinu. Má nú ganga að henni vísri hvarvetna á Suðurlandsundirlendi þar sem álitleg gróðurþykkni finnast, allt austur undir Eyjafjöll. Hún fannst fyrst í Borgarfirði 2010, Skaftártungu, Hornafirði og Neskaupstað 2015.

Blaðfluga (5 mm) er einlit gul á lit og því áberandi þegar hana ber fyrir augu. Hún þykir óvenjuleg og vakti því fljótlega athygli þegar henni tók að fjölga í görðum höfuðborgarbúa. Spreklufluga (Toxoneura trimacula) er þó áþekk, einnig gul á lit en með flekkótta vængi, ekki einlita glæra eins og blaðflugan. Á kyrrum kvöldum má sjá blaðflugur sitjandi á húsveggjum, gjarnan í kringum útiljós og á upplýstum gluggum. Blaðfluga er meinlaus landnemi sem á bjarta framtíð fyrir sér í gróskumiklum görðum okkar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Fauna Europea. Lyciella rorida http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=62088. [skoðað 25.8.2010]

Wikipedia: http://no.wikipedia.org/wiki/L%C3%B8vfluer. [skoðað 25.8.2010]

Höfundur

Erling Ólafsson 25. ágúst 2010, 27. september 2019.

Biota

Tegund (Species)
Blaðfluga (Lyciella rorida)