Býflugnaætt (Apidae)

Almennt

Fjölskipuð ætt af undirættbálki gaddvespna (Apocrita) með um 5.700 tegundir þekktar í heiminum sem skipast í yfir 200 ættkvíslir. Í Evrópu er einnig ríkidæmi tegunda, alls um 2.070 skráðar í 72 ættkvíslum. Margar tegundir ættarinnar eru afar mikilvægir frævarar jafnt í akuryrkju og náttúru. Þær þekktustu og mest áberandi lifa félagslífi í búum, stundum tugþúsundum saman. Mikill meirihluti tegundanna eru þó einyrkjar, utan seilingar og ókunnar almenningi. Hunangsbý (Apis mellifera) er eina skordýrið sem maðurinn hefur virkjað sem húsdýr í sína þágu.

Býflugur eru af ýmsum stærðum og gerðum, sumar smávaxnar, aðrar með stærstu skordýrum. Óháð stærð eru þær flestar bolmiklar, bæði frambolur og afturbolur sem hanga saman á örgrönnu mitti. Flestar eru þær loðnar, mismikið þó, sumar þétthærðar um allan bolinn, oftast með einlitum hárum en sumar fleiri litum sem mynda mynstur, t.d. randamynstur. Augu há, langegglaga, fálmarar frekar stuttir, hnébeygðir. Munnlimir mynda langan sograna til að draga upp bómasafa. Upprunalegur varpbroddur hefur þróast í stungubrodd sem tengdur er eiturkirtli og hvílir inni í bolnum þegar ekki í notkun til varna. Hjá sumum hefur broddurinn þróast burt. Flugurnar nærast á blómasafa og frjókornum. Sambýlistegundir framleiða vax úr kirtlum til að byggja bú.

Á Íslandi hafa fundist 8 tegundir býflugna. Ein þeirra er slæðingur, ein vísvitandi innflutt á seinni tímum og haldin sem húsdýr til hunangsframleiðslu. Ein hefur hefur lifað í náttúrunni sennilega um aldir en þær ótöldu eru nýlegir landnemar.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |