Rauðhumla (Bombus hypnorum)

Útbreiðsla

Evrópa og Asía, frá Miðjarðarhafi til N-Noregs, austur um barrskóga- og laufskógabelti Síberíu til Kyrrahafs, Kurileyja, Sahkalin og Japans, suður til Himalaya.

Ísland: Nokkrir fundarstaðir á Suðvestur- og Suðurlandi; Keflavík, Hafnarfjörður, Reykjavík, Mosfellsbær, Selfoss, Fljótshlíð og Skógar undir Eyjafjöllum.

Lífshættir

Húsagarðar með fjölbreyttum gróðri blómplantna og blómstrandi runnum eru kjörlendi rauðhumlu sem velur búum sínum stað í holrýmum í húsveggjum og undir gólffjölum eða öðrum afdrepum í nábýli við manninn, einnig í hreiðurkössum og svöluhreiðrum eða í holum trjám sem á þó varla við hér á landi. Villt íslensk náttúra hentar rauðhumlu ekki þar sem hvorki gróðurfar né bústaðir eru við hæfi. Búin eru tiltölulega fjölliðuð. Í Noregi fljúga drottningar frá lokum mars og fram eftir september er ný kynslóð þeirra leggst í vetrardvala. Þernur sjást frá lokum apríl til fyrri hluta september en karldýr frá seinni hluta júní og til loka september.

Almennt

Rauðhumla fannst hér fyrst í Keflavík 19. ágúst 2008. Var þar um drottningu að ræða og var eintakinu komið til Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði. Það er nú varðveitt í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Talið var líklegt að um tilfallandi slæðing hafi verið að ræða sem hefði borist til Keflavíkur með skipi eða varningi. Ári síðar, 10. ágúst 2009, flaug önnur drottning inn í hús í vesturbæ Reykjavíkur og fleiri fundust sama sumar í Mosfellsdal. Vorið 2010 fór að bera nokkuð á humlum með ryðrauðan frambol, tilkynningar bárust nokkuð víða að, og var um hríð talið að þar væru rauðhumlur á ferð. Þá kom hins vegar í ljós að tegundirnar voru tvær, þ.e. rauðhumla og ryðhumla (B. pascuorum). Rauðhumla var í maí 2010 aftur staðfest frá Keflavík og auk þess frá Hafnarfirði. Síðan hefur tegundinni fjölgað skart á höfuðborgarsvæðinu og dafnað hún þar vel. Sumarið 2012 hafði hún náð austur eftir Suðurlandi, Selfoss, Fljótshlíð og Skógar, og vorið 2013 fannst hún á Akranesi.

Ýmsar humlutegundir hafa átt í vök að verjast í Evrópu vegna framþróunar byggðar og þar af leiðandi undanhalds villtrar náttúru. Það á hins vegar ekki við um rauðhumlu sem hefur notið góðs af aukningu byggðar og ræktunar garða henni samfara í Evrópu á 20. öld. Þar hefur hún auk þess verið að leggja undir sig nýjar lendur á seinni árum og t.d. numið land á Bretlandseyjum þar sem hún var óþekkt til ársins 2001. Þar fjölgar tegundinni frá ári til árs og er gert ráð fyrir að hún geti auðveldlega dreifst um gjörvallt ríkið.

Ætla má að rauðhumlu bíði björt framtíð hér á Íslandi og er ekki ástæða til annars en að taka henni fagnandi. Hún kann e.t.v. að veita öðrum innfluttum humlum nokkra samkeppni um blómasafann en það er varla áhyggjuefni. Eins og aðrar humlur ber rauðhumla frjókorn á milli blóma ötullega metnaðarfullum garðræktendum til yndisauka. Án efa hefur rauðhumla borist til landsins með varningi.

Rauðhumla er heldur smávaxnari en húshumla (B. lucorum) en öllu stærri en okkar gamalgróna móhumla (B. jonellus). Hún er meðalstór, bústin og loðin, ekki röndótt heldur er frambolur einlitur, ryðrauður en afturbolur svartur nema hvítur aftast. Stundum er frambolur svartur og er humlan þá alsvört með hvítan afturenda. Svarta afbrigðinu hefur farið fjölgandi.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Ahrné, K., J. Bengtsson & T Elmquist 2009. Bumble Bees (Bombus spp) along Gradient of Increasing Urbanization. PLoS ONE 4(5): e5574. doi: 10.1371/journal.pone.0005574.

BWARS - Bee, Wasps and Ants Recording Society 2010. Hymettus. Information Sheet. Tree Bee (Bombus hypnorum) http://www.bwars.com/Files%204%20downloading/Bombus_hypnorum_infosheet.pdf [skoðað 31.5.2010]

Goulson, D. & P. Williams 2001. Bombus hypnorum (Hymenoptera: Apidae), a new British bumblebee? Br. J. Ent. Nat. Hist. 14: 129–131.

Løken, A. 1973. Studies on Scandinavian Bumble Bees (Hymenoptera, Apidae). Norsk ent. Tidsskr. 20: 1–218.

Proshchalykin, M.Yu. 2004. A check list of the bees (Hymenoptera, Apoidea) of the southern part of the Russian Far East. Far Eastern Entomologist nr. 143:1–17.

Höfundur

Erling Ólafsson 19. maí 2010, 3. júlí 2019.

Biota

Tegund (Species)
Rauðhumla (Bombus hypnorum)