Móhumla (Bombus jonellus)

Útbreiðsla

N- og M-Evrópa, til nyrsta hjara Noregs, suður til NV-Spánar og Alpafjalla, í fjallhéruðum Tyrklands, austur eftir Síberíu til Kyrrahafs, handan Beringssunds í Alaska og Kanada vestur til Hudsonflóa.

Ísland: Algeng á láglendi um land allt, einnig á miðhálendinu en sjaldgæf þar.

Lífshættir

Móhumla finnst einkum í mó- og kjarrlendi, einnig í húsagörðum og skrúðgörðum þar sem hún á þó í erfiðri samkeppni við stærri tegundir sem hafa numið land. Drottningar fara á kreik að afloknum vetrardvala u.þ.b. viku af maí þegar villtar víðitegundir (Salix) taka að blómgast. Sú allra fyrsta sem fundist hefur á að vori til fannst 24. apríl en það er undantekning að þær sýni sig svo snemma. Um miðjan maí eru drottningar áberandi þegar þær sækja á víðirekla, einkum loðvíðis (S. lanata) og gulvíðis (S. phylicifolia), eftir næringu og þar sem þær leita sér að holum sem henta til að stofna til bús. Oft er það í þúfnakollum eða þykkum mosa við trjáhríslur, í skurðbökkum og börðum, undir steinum eða grónum vegghleðslum. Um mánuði eftir að stofnað er til búsins birtast fyrstu þernur sem taka til við að sinna búrekstrinum, byggja klakhólf úr vaxi og draga að frjó og blómasafa. Þær afla fanga á ýmsum tegundum plantna og flytja sig á milli eftir því hvenær hver og ein tegundin blómstrar. Má þar sem dæmi nefna bláberjalyng (Vaccinium uliginosum), beitilyng (Calluna vulgaris), umfeðming (Vicia cracca) og alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) svo fáein dæmi séu tekin. Karldýr fara að sjást um miðjan júlí svo og nýjar drottningar. Búskap lýkur svo að mestu þegar líður á ágúst en stöku drottning lætur sjá sig allt fram í miðjan september. Í Noregi hefur verið sýnt fram á tvær kynslóðir á sumri. Ekki eru gögn um slíkt héðan.

Almennt

Móhumla gæti hafa átt hér heima frá landnámstíma en varla leikur á því vafi að hún hafi upphaflega borist með mönnum, e.t.v. með heyi landnámsmanna. Hún er sennilega það skordýr hér á landi sem flestir landsmenn kannast við. Það hefur verið til hennar vitnað undir ýmsum heitum; hunangsfluga, býfluga, villibýfluga, randafluga og kannski fleiri staðbundnum heitum. Móhumla er nýlegt heiti sem tekið var upp til samræmis nafngiftum á öðrum tegundum. Fram yfir miðja 20. öldina var móhumla ein af sínu tagi hér á landi eða þar til garðhumla (Bombus hortorum) barst til landsins og náði fótfestu á 6. áratugnum. Síðan hafa fleiri tegundir borist hingað frá Evrópu og fest sig í sessi.

Einni nýju humlanna hefur lukkast landnámið einkar vel, þ.e. húshumlunni (Bombus lucorum). Henni fjölgaði hratt á skömmum tíma og náði að dreifast um láglendi allt umhverfis landið, fyrst tiltölulega háð mannlegu umhverfi, í byggð og sumarhúsalöndum, en fljótlega fetaði hún sig út í villta náttúru einnig. Móhumla virðist hafa liðið töluvert fyrir þessa útþenslu húshumlunnar. Hún hefur að miklu leyti hrakist úr görðum okkar og líður einnig fyrir samkeppni um blómasafann úti í náttúrunni. Svo virðist sem móhumlu hafi fækkað með tilkomu húshumlunnar og að hún megi muna hér betri tíð.

Móhumla er minni en nýliðarnir þó ekki dugi það til að greina tegundina með vissu. Þrjár tegundanna eru svartar með gulum röndum og hvítum afturenda. Litmynstur móhumlu og garðhumlu er eins, frambolur með tveim gulum röndum, þ.e. fremst og aftast, og afturbolur með gulri rönd fremst, þannig að gula beltið aftast á frambol og beltið fremst á afturbol myndar breitt gult belti um miðjan bolinn (ólíkt húshumlu). Mikill munur er á höfuðlagi móhumlu og garðhumlu, móhumlan með sitt stutta höfuð, þ.e. stutt bil á milli augna og kjálka sem er miklu breiðara á garðhumlu. Auk þess er mikill munur á tungulengd tegundanna, stutt tunga á móhumlu en löng á garðhumlu. Af þeim sökum er lítil sem engin samkeppni um blómasafa hjá þessum tveim tegundum. Þær leita ekki í samskonar blóm.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Løken, A. 1973. Studies on Scandinavian Bumble Bees (Hymenoptera, Apidae). Norsk ent. Tidsskr. 20: 1–218.

Natural History Museum. Bombus. http://www.nhm.ac.uk/research-curation/research/projects/bombus/_key_colour_british/ck_local_n.html#jonellus [skoðað 16.5.2012]

Petersen, B. 1956. Hymenoptera.. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Prys-Jones, O.E., Erling Ólafsson & Kristján Kristjánsson 1981. The Icelandic Bumble bee fauna (Bombus Latr., Apidae) and its distributional ecology. Journal of Apicultural Research 20: 189–197.

Höfundur

Erling Ólafsson 16. maí 2012, 3. júlí 2019.

Biota

Tegund (Species)
Móhumla (Bombus jonellus)