Beltasveðja (Urocerus gigas)

Útbreiðsla

Umhverfis norðurhvel; gjörvöll Evrópa, Asía, N-Afríka og N-Ameríka; innflutt til S-Ameríku og Ástralíu.

Ísland: Víða á Suðvesturlandi, frá Reykjanesbæ til Akraness og Kjósar, Grindavík austur í Grímsnes, Skeið og Flóa, einnig Vestmannaeyja. Aðrir fundarstaðir eru Rif og Stykkishólmur á Snæfellsnesi, Sauðárkrókur og Akureyri á Norðurlandi, Kárahnjúkar, Eskifjörður, Fáskrúðsfjörður og Hornafjörður á Austurlandi.

Lífshættir

Beltasveðja lifir á mörgum tegundum barrtrjáa af furuætt (Pinaceae). Að minnsta kosti fimm ættkvíslir eru skráðar sem hýslar, þ.e. greni (Picea), fura (Pinus), lerki (Larix), þinur (Abies) og dögglingsviður (Pseudotsuga). Greni er efst á lista danskra beltasveðja. Í N-Evrópu nær flugtími tegundarinnar frá júní og fram í byrjun október en algengust er hún í júlí til ágúst. Kvendýrin verpa allt að 350 eggjum. Þau bora með sterkri varppípunni ofan í börk trjánna og koma eggjum sínum fyrir þar. Gömul og jafnvel fallin tré verða helst fyrir valinu. Lirfurnar éta sér síðan leið inn í viðinn, en á honum nærast þær, og vaxa þar upp á einu til þrem árum. Fullvaxnar koma þær sér fyrir nálægt yfirborði barkarins til að púpa sig. Fullorðnar beltasveðjur nærast á frjókornum.

Almennt

Beltasveðja er önnur tveggja tegunda sem kölluð hefur verið trjávespa og gjarnan risatrjávespa til aðgreiningar frá hinni tegundinni, þ.e. blásveðju (Sirex juvencus). Í seinni tíð hafa fleiri tegundir af þessu tagi komið við sögu og heitið trjávespa áfram notað sem samheiti yfir þennan hóp tegunda af ættinni Siricidae.

Beltasveðja berst stöðugt til landsins með innfluttu timbri, nýjum vörubrettum og utanumslætti ýmiskonar. Hún hefur verið þekkt héðan frá fornu fari. Í Ferðabók Eggert og Bjarna (1772) er getið um „Tenthredo aculeo crasso“, sem hefur verið grunuð um að vera þessi tegund. Í Skýrslu Náttúrufræðifélagsins 1915–16 er getið um þrjár trjávespur sem Náttúrugripasafninu voru færðar og gætu hafa verið beltasveðjur. Í Skýrslu 1921–22 er getið um „2 trjáhvespur (Sirex gigas)“ frá Borgarnesi. Í grein sinni „Nýjungar úr dýraríki Íslands“ í Skýrslu 1929–30 skráir Bjarni Sæmundsson m.a. eftirfarandi: „Risatrjávespa (Sirex gigas L.)... Oft fundin lifandi í Rvík í júní–ágúst. 1907–1921. Einkum sáust margar 1916 og 1918, eftir að timburskip voru nýkomin (frá Svíþjóð?). Einnig í Siglufirði tvær í júlí 1929...“

Fullyrða má að beltasveðja berst til landsins í nokkrum mæli á ári hverju. Í safni Náttúrufræðistofnunar eru varðveitt 119 eintök af tegundinni. Nokkuð er þar af gömlum eintökum, m.a. tvö af eintökunum frá 1916 sem Bjarni Sæmundsson gat um. Það var þó ekki fyrr en upp úr miðjum 7. áratug síðustu aldar að farið var að halda gögnum til haga skipulega hjá stofnuninni og finnendur sem höfðu samband út af trjávespum hvattir til að skila þeim til Náttúrufræðistofnunar. Nokkur áraskipti hafa verið af fjölda eintaka sem borist hafa til varðveislu. Flest ár eftir að skordýrafræðingur kom til starfa á stofnuninni (1978) hafa einhver eintök borist en langflest á 9. áratugnum. Þá bárust flest 12 eintök árið 1985 sem reyndar var toppað af 16 eintökum árið 1991. Síðan hafa borist að jafnaði um tvö eintök á ári, frá engu upp í fimm.

Langflestar beltasveðjur berast til landsins síðsumars en um helmingur eintakanna sem varðveitt eru í safni NÍ (alls 60 af 119) eru frá ágústmánuði, 24 eintök eru frá júlí og 15 frá september. Því hafa aðeins fáeinar beltasveðjur fundist í öðrum mánuðum og engar í desember og janúar.

Þess hefur því verið vænst að fyrr eða síðar myndi tegundin setjast að í skógarreitum hér á landi. Hún þyrfti bara að bíða þess að barrtrén næðu aldri til að hýsa hana. Beltasveðja hefur nú sýnt tilburði í þá átt. Lirfur fundust í stofni gamals lerkitrés sem fellt var á Mógilsá í Kollafirði 2011. Öll dýrin sem klöktust úr viðnum reyndust vera karlkyns. Að öllum líkindum verða karldýr til úr ófrjóvguðum eggjum móður sem hefur því verið einstæð þegar hún verpti að þessu sinni.

Beltasveðja er stór og myndarleg skepna. Stærðin er samt breytileg. Kvendýrin eru langflest 30–40 mm á lengd aftur á enda varppípunnar (sveðjunnar) og sívalur bolurinn, jafnbreiður fram og aftur, allt að 8 mm á breidd. Rót varppípunnar liggur undir afturbolnum miðjum, er hún um 22 mm löng á stærstu dýrum og stendur helmingur hennar aftur af bolnum. Karldýr eru svipuð á lengd ef varppípan er undanskilin, en slíka hafa karldýr að sjálfsögðu ekki. Þau eru mun mjóslegnari og með lengri fálmara. Höfuð á báðum kynjum er svart, með áberandi stórum gulum blettum aftan við augun og gulum fálmurum, sem eru mun lengri á karldýrum en kvendýrum. Frambolur er svartur með gulleitum vængjum og fótum sem eru að mestu gulir, á kvendýrum eru þó lærliðir afturfóta svartir og afturfætur að mestu svartir á karldýrum. Á kvendýrum er gildur afturbolurinn gulur til rauðgulur með breiðu svörtu belti nokkuð framan við miðju og öðru mjórra aftast. Karldýr hafa hins vegar rauðgulan afturbol með svartan afturenda. Á afturenda kvendýra er broddlaga gulur stafur sem liggur yfir varppípunni og er hann mun styttri en varppípan. Karldýr hafa mun styttri nálarlaga odd á afturendanum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Bjarni Sæmundsson 1931. Nýjungar úr dýraríki Íslands. Skýrsla um Hið íslenska náttúrufræðifélag 1929–30.

Eggert Olafsen & Biarne Povelsen 1772. Rejse igiennem Island foranstaltet af Videnskabernes Sælskab i Kjøbenhavn. Sorøe. 1042 bls.

Massachusetts Introduced Pests Outreach Project. Giant Woodwasp. http://www.massnrc.org/PESTS/pestFAQsheets/giant%20woodwasp.htm [skoðað 13.4.2011]

Olsen, L.-H., J. Sunesen & B.V. Pedersen 2009 (4. útg.). Små dyr i skoven. Gyldendal, Kaupmannahöfn. 246 bls.

Petersen, B. 1956. Hymenoptera.. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Sangild, S. (ritstj.) 2007 (9. útg.). Politikens naturguider. Insekter i farver. Politikens Forlag, Kaupmannahöfn. 232 bls.

Schiff, N.M., S.A. Valley, J.R. LaBonte & D.R. Smith 2006. Guide to the Siricid Woodwasps of North America. USDA Forest Service, Morgantown, West Virginia. 102 bls.

Skýrsla um Hið íslenska náttúrufræðifélags 1915–16, 1917–18, 1921–22.

Wikipedia. Urocerus gigas. http://en.wikipedia.org/wiki/Urocerus_gigas [skoðað 13.4.2011]

Höfundur

Erling Ólafsson 13. apríl 2011, 25. nóvember 2013

Biota

Tegund (Species)
Beltasveðja (Urocerus gigas)