Húsageitungur (Vespula germanica)

Útbreiðsla

Upprunaleg heimkynni í M- og S-Evrópu, norður til S-Finnlands, N-Afríku og tempruðu hluta Asíu. Hefur borist þaðan og numið land í austanverðri N-Ameríku, sunnanverðri S-Ameríku, S-Afríku, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður, einnig sem slæðingur á Akureyri og Reyðarfirði.

Lífshættir

Húsageitungur hefur einungis fundist í byggð, í húsagörðum og næsta nágrenni þeirra. Hann hefur alfarið verið háður nábýli við menn. Bú hafa ýmist fundist í holum í jörðu, undir steinum og hellum, inni í vegghleðslum og ekki síður inni á húsþökum og háaloftum, í holrýmum í veggjum, kjallarageymslum, bílskúrum og garðhúsum. Lífsferill húsageitungs er mjög áþekkur lífsferli holugeitungs (Vespula vulgaris) enda margt líkt með skyldum. Þó stöku drottning kunni að rumska af vetrarsvefni strax í mars þá fara þær ekki að sýna sig fyrir alvöru fyrr en eftir miðjan maí og oft síðar. Í september nær búþroskinn lokastigi og stöku drottningar af haustkynslóð hafa sést fram eftir október. Á haustin slæðast þær gjarnan inn í hús í leit að stað til vetrardvalar. Eins og hjá öðrum tegundum geitunga veiða þernur húsageitunga önnur smádýr sem þær mauka ofan í lirfurnar í búunum. Blómasafi er auk þess mikilvægur orkugjafi fyrir vinnusamar þernur. Búin hafa náð stærð fótbolta og mestur fjöldi sem talinn hefur verið úr búi húsageitunga er 2.298 fullþroska einstaklingar.

Almennt

Húsageitungur á sér brotakennda sögu hér á landi. Slíkur fannst í Reykjavík í janúar 1937 og var fullvíst talið að um slæðing hefði verið að ræða. Náttúrugripasafninu á Akureyri, sem svo hét þá, barst eintak sem fannst þar í bæ veturinn 1967 og fylgir því ekki frekari saga. Síðan uppgötvaðist það haustið 1973 að húsageitungar höfðu komið sér fyrir með búskap í Menntaskólanum við Tjörnina sem var til húsa í Miðbæjarskólanum gamla í miðborg Reykjavíkur. Það var í fyrsta skipti sem geitungar fundust með bú hér á landi og urðu til óþurftar, en ónæði varð nokkuð af þeirra völdum í kennslustundum. Upp frá þessu fóru húsageitungar að finnast því sem næst árlega í Reykjavík og síðar í nágrannasveitarfélögum; í Hafnarfirði 1978, Garðabæ 1987, Kópavogi 1990 og á Seltjarnarnesi 1997. Þá fannst húsageitungur á Reyðarfirði í janúar 1997 en sá barst þangað með vörum frá Reykjavík.

Húsageitungum vegnaði ágætlega á höfuðborgarsvæðinu frá miðjum 9. áratug síðustu aldar og fram að aldamótum. Þá fór hins vegar að halla undan fæti og aðeins fáein bú fundust eftir aldamótin, það síðasta í vesturbæ Reykjavíkur 2007. Allt bendir nú til að húsageitungar heyri sögunni til hér á landi. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að þessi yrðu örlög þeirra. Það kom í raun meira á óvart að þeim skyldi lukkast hér landnám og að þeir hafi átt góðu gengi að fagna hér um áraraðir. Tegundin er suðrænni en svo að við því hefði mátt búast. Húsageitungar munu eflaust halda áfram að slæðast til landsins með varningi og kunna e.t.v. að gera aðra atlögu að okkur. Því til staðfestingar birtist drottning í eldhúsi Landspítalans í Reykjavík í desember 2011, en hún hafði slæðst þangað lifandi í matvörupakkningu.

Húsageitungur er öðrum geitungum líkur í útliti, tvílitur, svartur með gulum röndum og blettum. Hann er gjarnan heldur gulari og bjartari en aðrir geitungar og auðþekktastur á gulu andliti með þrem litlum svörtum dílum. Hliðarrendur á frambol eru einnig einkennandi, ekki jafnbreið gul strik heldur breikka þær áberandi niður á við um miðbikið þannig að röndin verður nánast eins og teygður þríhyrningur.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Erling Ólafsson 1979. Um geitunga (Hymenoptera, Vespidae) og skyldar gaddvespur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 49: 27–40.

Erling Ólafsson 2008. Geitungar á Íslandi. Námsgagnastofnun, Reykjavík. 24 bls.

Petersen, B. 1956. Hymenoptera.. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Wikipedia. Vespula germanica. http://en.wikipedia.org/wiki/Vespula_germanica [skoðað 1.12.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 1. febrúar 2012

Biota

Tegund (Species)
Húsageitungur (Vespula germanica)