Skógbursti (Orgyia antiqua)

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa norður til heimskautsbaugs og suður til Miðjarðarhafs, austur eftir Síberíu til Kyrrahafs; N-Ameríka.

Ísland: Sunnan- og suðvestanvert landið, frá Hafnarfirði austur að Pétursey í Mýrdal, svo og upp Grímsnes að Laugarvatni.

Lífshættir

Skógbursti finnst við nokkuð fjölbreytilegar aðstæður, í opnu mólendi, blómlendi, kjarrlendi og í seinni tíð í auknum mæli í sumarbústaðalöndum. Fæðuval er fjölbreytt, ýmsar jurtkenndar plöntutegundir, ljónslappi (Alchemilla alpina), kornsúra (Bistorta vivipara), mjaðjurt (Filipendula ulmaria) og víðir (Salix) og fleiri trjákenndar plöntur einkum við sumarbústaði. Lirfurnar vaxa upp fyrrihluta sumars, í júní til júlí. Fullvaxnar koma þær sér fyrir í samanspunnum blöðum, í sprungum í trjáberki eða jafnvel í vari á jörðu niðri, spinna um sig voldugan, grófgerðan, grábrúnan hjúp og púpa sig í honum. Fiðrildin fara síðan á flug seint í júlí og eru á ferli fram í byrjun september. Það er reyndar ofsögum sagt að kvendýrin fari á flug því þau eru vængjalaus með öllu. Þegar þau hafa skriðið úr púpu koma þau sér fyrir utan á spunahjúpnum, sitja þar sem fastast og senda karldýrum skilaboð um viðveru sína með lokkandi lyktarefnum. Þegar það hefur borið árangur verpa þau hörðum kalkkenndum eggjum sínum í klasa rétt utan við hjúpinn. Eggin klekjast síðan næsta vor.

Almennt

Það er ekki gott að segja hvernig skógbursti hefur upphaflega borist til landsins, varla þó á eigin vængjum því kvendýrin eru vængjalaus eins og fram hefur komið. Líkast til hefur hann borist hingað með mönnum og þá e.t.v. fyrir margt löngu síðan, því snemma á 20. öld finnst hann á nokkrum stöðum syðst á landinu, frá Fljótshlíð austur í Mýrdal. Ekki er hægt að útiloka að litlar lirfur hafi getað loðað við fiður farfugla að vori og borist með þeim til landsins frá vetrarstöðum. Það þyrfti þá að gerast í slíkum mæli að lirfur beggja kynja kæmu og höfnuðu á sama stað, því ekki fljúga kerlurnar og vængjuð karldýrin sýna auk þess dapra flugtakta. Þetta er því ekki vænleg leið fyrir skógbursta til að nema nýjar lendur.

Með hlýnandi loftslagi í seinni tíð hefur skógbursta fjölgað hér og útbreiðslusvæðið aukist verulega til vesturs. Þar spilar einnig inn í þróun og þétting sumarhúsalanda með stórauknum gróðri sem veitir bæði skjól og fæðu. Staðbundin fjölgun hefur jafnvel verið slík að lirfur eru farnar að verða áberandi og jafnvel skaða ræktaðan gróður. Þrátt fyrir þetta sjást fiðrildin sjálf ekki í auknum mæli að sama skapi. Þau sjást nánast aldrei, því karldýrin flögra ekki um hvorki að degi né nóttu. Sennilega sitja þeir sem fastast þar til þeir merkja lyktarboð frá kerlum sem vilja komast á stefnumót og stefna til þeirra eftir stystu leiðum. Karlarnir hafa mjög öfluga skynjara í fjaðurgreindum fálmurum sínum sem nema lyktarmerkin nákvæmlega.

Eins og fram hefur komið er hreyfanleiki fiðrildanna takmarkaður og því má velta vöngum yfir því hvernig tegundinni hefur tekist að auka við útbreiðslusvæði sitt svo verulega á tiltölulega skömmum tíma. Væntanlega eiga sumarhúsaeigendur einhvern þátt í því með flutningi á plöntum til ræktunar. Einnig er hugsanlegt að litlar lirfur sem eru alsettar löngum hárum geti svifið um og dreifst með vindum. Þá er því haldið fram að lirfur geti auðveldlega borist milli staða fljótandi á vatni.

Það eru fyrst og fremst lirfurnar sem sjást og vekja athygli fyrir nær ólýsanlegt hára- og burstaskrúð sitt. Í glæsileik sínum eiga þær enga sína líka hér á landi. Grunnliturinn er svartur. Bolurinn er alsettur skærrauðum blettum og út úr hverjum þeirra vaxa fjölmörg gulbrún og brún bursthár sem standa langt út frá bolnum. Aftur og fram úr bolnum skaga langir þéttir svartir bursthárabrúskar með fjöðruðum endum. Þá eru upp úr bakinu á framanverðum bolnum fjögur samliggjandi afar þétt gulbrún háraknippi eða hárapenslar. Sá sem sér lirfu skógbursta gleymir henni seint.

Bolur karldýrsins er tiltölulega þykkur. Bolur og vængir eru einlitir ryðrauðir að undanskildum áberandi hvítum díl utarlega og aftarlega á framvængjum. Fálmarar áberandi fjaðurgreindir. Kvendýrið er óásjálegt, grábrúnn, þykkur og útblásinn hnoðri sem fellur vel að litnum á spunahjúpnum sem það situr venjulega utan á. Höfuð og fremsti hluti frambols kunna að vera heldur dekkri og fálmarar eru með stuttri fjaðurgreiningu.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hydén, N., K. Jilg & T. Östman 2006. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Ädelspinnare-tofsspinnare. Lepidoptera: Lasiocampidae-Lymantriidae. ArtDatabanken, SLU, Uppsala.

Lindroth, C.H. 1931. Die Insektenfauna Islands und ihre Probleme. Zool. Bidr. 13: 105–589.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 21. mars 2012.

Biota

Tegund (Species)
Skógbursti (Orgyia antiqua)