Hávella (Clangula hyemalis)

Útbreiðsla

Hávella verpur umhverfis norðurhvel jarðar og þá einkum í heimskautalöndum. Íslenskar hávellur eru að öllum líkindum staðfuglar að mestu.

Stofnfjöldi

Hávella er allalgengur varpfugl hér á landi og hefur verið giskað á að íslenski varpstofninn sé 2.000−3.000 pör (Guðmundur A. Guðmunds­son 1998). Sterk rök hafa verið færð fyrir því að fargestir úr austri, sem hafa vetursetu við Grænland, komi hér við á vorin, en þá sjást jafnframt stærstu hóparnir hér, jafnvel mörg þúsund fuglar, einkum við norðanvert landið (sjá kort 1).

Hávellur sjást allt í kringum land á veturna (sjá kort 2) og er áætlað að um 110.000 fuglar hafi hér vetursetu, flestir við Vestfirði, Norðurland og Austfirði (Arnþór Garðarsson 2009). Ljóst er að langflestir þessara fugla eru komnir norðan að.

Válistaflokkun

NT (í yfirvofandi hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
NT VU VU

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 9 árTímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1987–2014

Vetrarvísitala hávellu sýnir samfellda aukningu (64%) frá um 1960–1995 en síðan samfellda fækkun (26%) til 2014 (sjá graf). Á viðmiðunartímabilinu (1987–2014) var fækkunin í heild einnig 26% eða 1,12% á ári. Langmest af þeim fuglum sem dvelja hér á veturna eru aðkomnir en íslenskir varpfuglar eru e.t.v. aðeins um tíundi hluti þeirra. Litlar upplýsingar liggja fyrir um þróun hávellustofnsins en við Mývatn fjölgaði varpfuglum um tæplega 70% á viðmiðunartímanum (Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, óbirt). Á grundvelli vetrarfuglatalninga er hávella flokkuð í yfirvofandi hættu (NT).

Viðmið IUCN

Stofn er talinn hafa minnkað um 20-25% á tímabili sem nemur þremur síðustu kynslóðum.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Hávella var ekki í hættu (LC).

Global position

Hávellu hefur fækkað eftir 1990 á mikilvægum vetrarstöðvum í Eystrasalti og er hún því nú bæði á heims- og Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU; BirdLife International 2015). 

Verndun

Hávella er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem andarvarp er mikið, skal veiðirétthafa heimilt að taka egg frá hávellu. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Eggin má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða hávellu frá 1. september til 15. mars.

Válisti

Í ljósi þess hve margar hávellur dveljast hér við land, má telja líklegt að hér séu vetrarstöðvar og/eða viðkomustaðir (sbr. kort 1) sem teljast alþjóðlega mikilvægir. Enn sem komið er skortir þó gögn til að afmarka slík svæði af einhverju öryggi.

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Evrópa/Grænland) = 25.000 fuglar/birds; 8333 pör/pairs (BirdLife 2016c)

B1 i: Ísland/Grænland = 6.590 fuglar/birds; 2.197 pör/pairs (BirdLife 2016c)

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson 2009. Fjöldi æðarfugls, hávellu, toppandar og stokkandar á grunnsævi að vetri. Bliki 30: 49–54.

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].

BirdLife International 2016. IUCN Red List for birds. http://www.birdlife.org [skoðað 20.10.2016].

Guðmundur A. Guðmundsson 1998. Þýðing votlendis fyrir fugla. Í Jón S. Ólafsson, ritstj. Íslensk votlendi: verndun og nýting, bls. 167–172. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Náttúrufræðistofnun Íslands. Vetrarfuglatalningar: niðurstöður (1952–2015, óbirt gögn, nema 1987–1989 og 2002–2015). http://www.ni.is/greinar/vetrarfuglatalningar-nidurstodur [skoðað 15.5.2016].

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Hávella (Clangula hyemalis)

Samantekt á Ensku

The Icelandic Clangula hyemalis population is roughly estimated 2,000‒3,000 pairs. The winter population is much larger or 110,000 birds. In addition, many thousands appear to migrate through Icelandic waters and several such sites may meet IBA criteria for this species.

Icelandic Red list 2018: Near threatened (NT), uplisted from Least concern (LC) in 2000.