Keldusvín (Rallus aquaticus)

Útbreiðsla

Keldusvínið er útbreitt í Evrópu og Asíu og verpur lítils háttar í Norður-Afríku. Það varp hér á landi langt fram á tuttugustu öldina en dó út sem varpfugl í kringum 1970 (Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Einar Þorleifsson 1998). Keldusvín var algengast á Suðurlandi en varp þó á láglendi í öllum landshlutum. Höfuðstöðvar þess voru í Safamýri og Landeyjum en það var einnig algengt í Meðallandi og Ölfusi. Þrátt fyrir talsverða leit á síðustu áratugum 20. aldar hefur keldusvín ekki fundist hér í varpi og er er nú aðeins þekkt hér sem sjaldgæfur en árviss flækingsfugl.

Stofnfjöldi

Keldusvín er útdautt sem varpfugl á Íslandi.

Lífshættir

Keldusvínið er eindreginn votlendisfugl og kann best við sig í fenjum og foræðum. Á veturna héldu íslensku fuglarnir sig við heitar laugar, læki og kaldavermsl. Talið er að þeir hafi verið staðfuglar. Keldusvínið gerir sér hreiður í hávöxnum gróðri og eggin eru óvenjumörg, yfirleitt 6-10. Um varptímann lætur hátt í fuglinum, hann hrín líkt og svín og er nafnið vafalaust dregið af sérkennilegri röddinni. Varptíminn hér á landi hófst í lok maí og stóð fram í september enda urpu fuglarnir að öllum líkindum tvisvar á sumri. Keldusvín er alæta en fæðan er þó að mestu úr dýraríkinu, þ.e. skordýr, skeldýr og smáfiskar.

Válistaflokkun

RE (útdauður á Íslandi)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
RE LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 4,6 ár Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir):

Keldusvín verpur ekki lengur á Íslandi, hætti varpi um 1970 (RE).

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Útdauður sem varpfugl á Íslandi (EW = RE, flokkur ekki til þá).

Ógnir

Tvennt er talið eiga stærstan þátt í útdauða keldusvínsins á Íslandi, framræsla votlendis, sem var stunduð af miklum þunga frá því fyrir 1950 og næstu áratugi, og innflutningur minks, sem breiddist hratt út um landið um líkt leyti. Minkur er nú alls staðar landlægur á fornum varpslóðum keldusvínsins og framræsla hefur gert mörg varplönd þess óbyggileg. Fyrir kemur að keldusvín drepist í gildrum sem lagðar eru út fyrir minka eða lendi í kjöftum hunda og katta.

Verndun

Keldusvín er friðað samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Til þess að það nái hér fótfestu að nýju þarf að standa skipulega að minkaveiðum og endurheimt votlendis þar sem helst er kjörlendi fyrir keldusvín.

Heimildir

Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Einar Þorleifsson 1998. Keldusvín – útdauður varpfugl á Íslandi. – Bls. 266-296 í Kvískerjabók. Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu, Höfn í Hornafirði.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Keldusvín (Rallus aquaticus)

Samantekt á Ensku

Rallus aquaticus formerly bred in the lowlands of Iceland, being most common in the south. It is now considered a rare but annual straggler, mainly in autumn. Large-scale drainage of wetlands initiated in the 1940s led to the destruction of key habitats. At the same time feral population of the American mink became established  and these two factors led to a swift and dramatic decline in Water Rail numbers. It became extinct as a breeding bird in Iceland around 1970, but occurs almost annually as a vagrant.

Icelandic Red list 2018: Regionally extinct (RE) as in the 2000 assesment.