Þúfutittlingur (Anthus pratensis)

Útbreiðsla

Þúfutittlingur verpur í norðanverðri Evrópu og hefur vetursetu sunnar í álfunni og í N-Afríku. Hér verpur hann í grónu landi um land allt og er afar algengur.

Stofnfjöldi

Giskað hefur verið á að varpstofn þúfutittlings á Íslandi sé 500.000−1.000.000 pör (Umhverfisráðuneytið 1992) sem er í góðu samræmi við mat á stofni þúfutittlings á láglendi <200 m h.y.s., út frá búsvæðavali og þéttleikamælingum eða um 545 þúsund pör (Tómas G. Gunnarsson o.fl. 2007). Hlíðstæð aðferð sem byggði á mun ítarlegri gögnum, einkum frá árunum 2012 og 2013, gaf um 1.500 þúsund pör á landinu öllu (Kristinn Haukur Skarphéðisson o.fl. 2017).

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Þúfutittlingur verpur einkum á láglendi en finnst þó í allt að 600 m hæð yfir sjó (sjá kort). Reiknuð stofnstærð er 1.516.000 pör (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Mestur er þéttleikinn í graslendi 78,4 pör/km², í mýravistum 69,2 pör/km² og í lúpínu 67,4 pör/km². Mikilvægustu vistgerðir/vistlendi eru móavist, 563.000 pör, og mýravistir, 318.000 pör. Um 28% þúfutittlinga reiknast innan mikilvægra fuglasvæða og munar þar mestu um Suðurlandsundirlendi, 14% (sjá töflu). Samkvæmt þessu er þúfutittlingur algengasti mófugl landsins og e.t.v. algengasti fugl landsins nú um stundir í ljósi þess hve lunda hefur fækkað mikið á síðustu árum.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 3,8 ár Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir):

Þúfutittlingsstofnin hér á landi er mjög stór og verpur dreift. Þróun hans hér á landi er óþekkt en væntanlega sveiflast hann nokkuð milli ára og viðkoman væntanlega mjög sveiflótt. Kerfisbundnar mælingar á þéttleika mófugla hér á landi eru tiltölulega skammt á veg komnar (hófust árið 2006) og hefa enn sem komið er ekki verið teknar nógu vel saman til að hægt sé að varpa ljósi á stöðuna. Engar vísbendingar eru þó um að þúfutittlingi hafi fækkað mikið hér á landi og er hann því flokkaður sem tegund sem ekki er í hættu (LC).

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Þúfutittlingur var ekki í hættu (LC).

Global position

Þúfutittlingum hefur fækkað og eru þeir því bæði á heims- og Evrópuválista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT; BirdLife International 2015).

Verndun

Þúfutittlingur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Válisti

Engin mikilvæg svæði eru skilgreind fyrir þúfutittling á Íslandi.

IBA viðmið – IBA criteria:

B3: Species of European conservation concern (category 4)

Töflur

Reiknaður fjöldi þúfutittlinga sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Anthus pratensis within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Borgarfjörður–Löngufjörur FG-V_10 B 26.049 2013 1,7  
Laxárdalsheiði VOT-V_3 B 21.571 2013 1,4  
Arnarvatnsheiði VOT-N_1 B 17.869 2013 1,2  
Skagi VOT-N_5 B 20.663 2013 1,4  
Melrakkaslétta  FG-N_4 B 51.756 2013 3,4  
Úthérað VOT-A_3 B 18.108 2013 1,2  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 214.543 2013 14,2  
Önnur mikilvæg svæði Other important areas   B 48.594 2013 3,2  
Alls–Total     419.153   27,7  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn/unpubl. data

Myndir

Heimildir

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Tómas G. Gunnarsson, Graham F. Appleton, Hersir Gíslason, Arnþór Garðarsson, Philip W. Atkinson og Jennifer A. Gill 2007. Búsvæðaval og stofnstærð þúfutittlings á láglendi. Bliki 28: 19–24.

Umhverfisráðuneytið 1992. Iceland: national report to UNCED. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Þúfutittlingur (Anthus pratensis)

Samantekt á Ensku

Anthus pratensis is one of the most common birds in Iceland. The population is estimated one and a half million pairs based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 28% may nest in IBAs designated for other species, but such areas are specifically designated for this species.

Icelandic Red list 2018: Least concern (LC) as in 2000.