Mynd: Hörður Kristinsson
Geldingahnappur (Armeria maritima)
Útbreiðsla
Geldingahnappur er mjög algengur um allt land. Hann vex einkum á melum, söndum og þurru mólendi. Hann er mikið á hálendi Íslands og finnst víða upp í 1000 til 1100 m hæð í fjöllunum. Hæst hefur hann fundist á Tungnahrygg á Tröllaskaga í 1300 m hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Almennt
Rætur geldingahnapps voru étnar er hart var í ári, þær eru harðar undir tönn og kallaðar harðasægjur líkt og rætur lambagrassins (Ágúst H. Bjarnason 1994).
Búsvæði
Vex helst á söndum og melum en einnig í þurru gras- eða mólendi (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Geldingahnappur myndar þéttar stofnhvirfingar og stundum þúfur (6–18 sm), blómin eru bleik og mörg saman í kollum á löngum stilk. Blómgast í júní.
Blað
Stöngullinn blaðlaus, stutthærður. Blöðin striklaga, 15–50 mm á lengd en 0,5–1 mm á breidd, öll í stofnhvirfingum sem standa þétt saman og mynda stundum þúfu (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin standa þétt saman í hnöttóttum kolli sem er 1,5–2 sm í þvermál. Krónan bleik, 6–10 mm í þvermál, krónublöðin snubbótt. Bikarinn trektlaga með fimm rauðleitum rifjum og glærum himnufaldi á milli og hefur smátennur upp af rifjunum, hærður neðan til. Fimm fræflar. Ein fræva með fimm stílum sem eru með hvítum hárum neðst. Himnukennd, oft gulbrún hlífðarblöð eru á kollinum neðanverðum (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Geldingahnappur getur minnt á ljósbera en þekkist frá honum á blaðlausum stöngli og heilum krónublöðum en ljósberinn hefur gagnstæð blöð á stönglinum og djúpklofin krónublöð (Hörður Kristinsson 1998).
Útbreiðsla: Geldingahnappur (Armeria maritima)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp