Hjartarfi (Capsella bursa-pastoris)

Mynd af Hjartarfi (Capsella bursa-pastoris)
Mynd: Hörður Kristinsson
Hjartarfi (Capsella bursa-pastoris)

Útbreiðsla

Hjartaarfi er algengur um allt land. Hann er að líkindum innflutt jurt sem komið hefur með manninum strax um landnám. Hjartarfinn vex einkum frá láglendi upp í 3–400 m hæð, inn til heiða einkum við hús gangnamanna eða við fjárréttir. Hæst fundinn við Laugafell norðan Hofsjökuls í 730 m hæð, við hrossaréttir í Fossgilsmosum á Sprengisandsleið í 680 m (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Hjartaarfi hefur gengið undir mörgum nöfnum, t.a.m. smalapungur, pungurt, hirðistaska, prestapungur og töskugras en öll tengjast þessi nöfn lögun skálpanna. Eins hafa nöfnin blóðarfi, blóðjurt og blóðgras verið notuð en þau vísa í lækningareiginleika hans (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Ef jurtin er tekin í nokkurn tíma getur hún stöðvar milliblæðingar en eins má nota hana til að minnka tíðablæðingar (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Duft búið til úr jurtinni er gott til að stöðva blóðnasir og blæðingu úr minni sárum á húð (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Eins ku hafa reynst vel að nota hjartaarfa við að stöðva blæðingar eftir fæðingar (Ágúst H. Bjarnason 1994). Hann er æðaherpandi og þvagdrífandi. Eins má nefna að áður fyrr var hjartaarfi notaður gegn mýraköldu ef kínin var ekki fáanlegt og Rómverjar töldu fræin góð við deyfð og drunga (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Inniheldur A-, B- og C-vítamín, kólín, asetýlkóín og týramín svo eitthvað sé nefnt (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Hann vex einkum í jörð sem hefur verið ræktuð, t.d. í gömlum kartöflugörðum og kálgörðum, blómabeðum, þar sem húsdýraáburður hefur verið geymdur, í hlaðvörpum og kringum útihús.

Lýsing

Fremur lágvaxin jurt (15–40 sm) sem blómstrar hvítum blómum í klösum á stöngulendum allt sumarið (maí–sept.). Hjartalaga skálpar einkenna tegundina.

Blað

Plantan er einær (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Laufblöðin afar breytileg að stærð og lögun, sum blöðin mynda stofnhvirfingu og eru ýmist fjaðurflipótt, fjaðursepótt eða heilrend. Stöngulblöðin stakstæð, fjaðursepótt, tennt eða nær heilrend, mjókka niður eða eru stilklaus með eyru (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin standa í klösum á stöngulendunum, þau eru smá, 2–3 mm í þvermál. Krónublöð hvít, öfugegglaga, naglmjó. Bikarblöðin tungulaga, ljósmóleit eða fjólublá, himnurend. Fræflar sex, ein fræva með stuttum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið öfughjartalaga eða þríhyrndur skálpur, um 5–7 mm á lengd og breidd, á legg sem er tvöföld eða þreföld skálplengdin (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund, auðþekktur á hjartalaga skálpunum.

Útbreiðsla - Hjartarfi (Capsella bursa-pastoris)
Útbreiðsla: Hjartarfi (Capsella bursa-pastoris)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |