Skarfakál (Cochlearia officinalis)

Mynd af Skarfakál (Cochlearia officinalis)
Mynd: Hörður Kristinsson
Skarfakál (Cochlearia officinalis)

Útbreiðsla

Allvíða við strendur landsins, einna síst á við Suðurland. Finnst einnig inni á norðanverðu hálendinu (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Almennt

Nytjar

Skarfakál hefur í gegnum aldirnar verið notuð sem lækningajurt. Plantan inniheldur nokkuð magn C-vítamíns og læknaði jurtin skyrbjúg og fleiri sjúkdóma. Í dag er hún helst notuð gegn gigt, bjúg og ýmsum húðsjúkdómum þar sem hún er talin blóðhreinsandi. Eins þykir gott að merja blöðin og leggja þau fersk við sár (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Það var talið svitadrífandi og örva tíðir kvenna svo eitthvað sé nefnt. Oft var skarfakálið soðið og lagt í skyr sem geymt var til vetrar (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Búsvæði

Fuglabjörg, klettar og klappir í fjörum. Finnst einstöku sinnum hátt til fjalla inni á hálendinu eða við vatnslitla árfarvegi.

Lýsing

Lágvaxin jurt (10–30 sm) með nær kringlótt blöð og hvíta blómklasa. Blómgast í maí–júní.

Blað

Stöngulblöðin fá, tígullaga eða lensulaga, með fáeinum tönnum eða sepum, stilklaus eða stilkstutt. Stofnblöðin mörg saman í hvirfingu, langstilkuð (tvö- til þreföld blöðkustærð). Blaðkan nýrlaga, hjartalaga eða kringlótt, nær heilrend, oftast um 2–4 sm í þvermál en getur farið niður í 2 mm á smáum plöntum (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru í klösum, gulhvít eða hvít, fjórdeild. Krónublöðin spaðalaga, um 4 mm á lengd. Bikarblöðin grænleit eða rauðfjólublá, sporöskjulaga eða öfugegglaga, 2 mm á lengd. Fræflar sex, ein hnöttótt fræva (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Fullþroskuð aldin eru 5–7 mm á lengd og 4–5 mm á breidd, sítrónulaga eða nær hnöttótt (Hörður Kristinsson 1998).

Afbrigði

Finnst einstöku sinnum hátt til fjalla inni á hálendinu eða við vatnslitla árfarvegi og er þá oft örsmátt, blaðkan kringlótt og aðeins 2–3 mm (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund. Smá fjallaafbrigðið getur þó minnt á jöklaklukku en þekkist frá henni á kringlóttri blöðku og hnöttóttum skálpum.

Útbreiðsla - Skarfakál (Cochlearia officinalis)
Útbreiðsla: Skarfakál (Cochlearia officinalis)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |