Krossmaðra (Galium boreale)

Mynd af Krossmaðra (Galium boreale)
Mynd: Hörður Kristinsson
Krossmaðra (Galium boreale)

Útbreiðsla

Algeng á sunnan og vestanverðu landinu. Á Norðurlandi og Austurlandi finnst hún aðeins á litlum blettum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Annars staðar á Norðurlöndunum var það trú manna að þessi jurt ylli missætti og jafnvel áflogum ef henni væri stráð á gólf eða ef menn sætu á henni! Þaðan er nafnið þrætugras komið (Ágúst H. Bjarnason 1994) annars er nafnið krossmaðra líklega dregið af hinum krossstæðu blaðkrönsum (Hörður Kristinsson - floraislands.is). Rót krossmöðrunnar má nota til að lita band rautt enda er náinn skyldleiki við krapprótina frá Austurlöndum en hún er mjög þekkt sem litagjafi. Liturinn af krossmöðrurótinni verður sérstaklega fallegur ef bandið er fyrst litað gult (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Búsvæði

Móar, balar og grónar brekkur (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Fremur lágvaxin planta (8–25 sm) með mörgum, smáum, hvítum blómum. Blómgast í júlí.

Blað

Stönglarnir ferstrendir með upphleyptum köntum. Blöðin fjögur saman, kransstæð á stönglunum, misstór í sama kransi, oftast tvö lengri og tvö styttri, lensulaga, snubbótt í endann en breikka niður, 8–18 mm á lengd með þrem strengjum að endilöngu, miðstrengurinn stærstur (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Mörg blóm í greindum blómskipunum sem koma út úr efri blaðöxlunum. Blómin fjórdeild, hvít. Krónan samblaða, 2,5–3,5 mm í þvermál, klofin langt niður með krossstæðum, útréttum flipum. Bikarblöðin örsmá, krókhærð. Fræflar fjórir, ein fræva með tveim stílum (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist hvítmöðru og laugamöðru. Krossmaðran er auðþekkt á fjórum blöðum í kransi, snubbóttum í endann. Þrenningarmaðra og mýramaðra líkjast henni einnig en krossmaðra þekkist frá þeim á þrístrengjuðum laufblöðum sínum.

Útbreiðsla - Krossmaðra (Galium boreale)
Útbreiðsla: Krossmaðra (Galium boreale)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |