Mynd: Hörður Kristinsson
Mýrasóley (Parnassia palustris)
Mynd: Hörður Kristinsson
Mýrasóley (Parnassia palustris)
Útbreiðsla
Hún er algeng um allt land frá láglendi og upp í um 600 m hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Almennt
Nafnið mýrasóley á ekki vel við þessa jurt þótt hefðbundið sé. Hún vex að jafnaði fremur í þurrlendi en mýrum hér á landi og er ekki af sóleyjarætt heldur er hún skyld steinbrjótum (Hörður Kristinsson 1998). Hún hefur reyndar einnig verið kölluð lifrarjurt þar sem hún er talin sérlega góð lifrinni (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Nytjar
Mýrasóley er töluvert notuð gegn langvarandi bólgum í lifur og meltingarvegi, gyllinæð og þrálátum niðurgangi. Hún hefur líka verið notuð gegn þunglyndi, óreglulegum hjartslætti og til að leggja á sár sem illa gróa (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Líffræði
Mýrasóley inniheldur m.a. barksýrur, kvoðunga og ýmis steinefni (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Búsvæði
Vex í snöggu valllendi, mólendi, rökum flögum eða deiglendi (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Lýsing
Fremur lágvaxin planta (8–15 sm) með stór, hvít, fimmdeild blóm. Blómgast í júní–júlí.
Blað
Stöngullinn hárlaus með einu blaði. Stofnblöðin egglaga til hjartalaga, heilrend, hárlaus, stilkurinn lengri en blaðkan (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin eru 1,5–2 sm í þvermál, einstök á stöngulendanum. Krónublöðin hvít með dekkri æðum, snubbótt. Bikarblöðin helmingi styttri en krónublöðin. Fræflar fimm með hvítum frjóhnöppum. Fimm kambgreindir, gulgrænleitir hunangsberar áberandi á milli fræflanna. Ein fjórblaða fræva (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist engri annarri íslenskri tegund.
Útbreiðsla: Mýrasóley (Parnassia palustris)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp