Háliðagras (Alopecurus pratensis)

Útbreiðsla

Það er algengt í túnum og í nágrenni túna í byggð um land allt, einnig víða meðfram vegum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Nytjar

Algeng tegund í túnum og sáðsléttum.

Vistgerðir

Tún og annað graslendi. Háliðagras er ræktað í túnum en slæðist þaðan í graslendi, skurði og vegkanta (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Lýsing

Hávaxið gras (30–120 sm) með langt, grátt, þétt en mjúkt ax. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stráið er sívalt. Slíðurhimnan 2–3 mm á lengd, þverstífð en skörðótt. Blöðin flöt, 5–9 mm á breidd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Smáöxin eru einblóma, þétt saman í sívölu, gráu, 3–8 sm löngu og 6–10 mm breiðu samaxi, sem við nánari athugun reynist þó vera axpuntur þar sem smáöxin hafa örstutta greinda leggi. Smáöxin með týtu sem oftast er nokkuð styttri en axagnirnar. Fræflarnir hanga út úr axinu um blómgunartíma, með fjólubláa eða brúna frjóhnappa (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Greining

Líkist vallarfoxgrasi en þekkist frá því á mýkri punti. Axagnir smáaxanna á vallarfoxgrasi eru einnig með tvö einkennandi horn. Eins eru smáöx háliðagrassins lausari á axhelmunni. Háliðagras þekkist frá knjáliðagrasi á lengri og ljósari punti auk þess sem háliðagras er mun hávaxnara (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Tún og annað graslendi. Háliðagras er ræktað í túnum en slæðist þaðan í graslendi, skurði og vegkanta (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Háliðagras (Alopecurus pratensis)