Vallarsveifgras (Poa pratensis)

Útbreiðsla

Vallarsveifgras er algengt um allt land og finnst allt upp undir 900 m hæð í fjöllum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Valllendi og tún, áburðarríkir staðir, hálfdeigjur og mýrar til fjalla (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Fremur hávaxin grastegund (20–70 sm), blaðmikil og skriðul. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Skriðular, blaðmiklar renglur áberandi. Renglurnar flatvaxnar og blöðin samanbrotin um kjölinn, blaðoddurinn í lögun eins og bátstefni. Slíðurhimna engin við neðsta blaðslíður, stutt við þau efstu (1–2 mm) (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Punturinn 5–15 sm langur. Smáöxin með þrem til fimm blómum. Axagnirnar oftast fjólubláar, með skörpum kili, oddmjóar, þrítauga. Blómagnirnar með ullhárum við fótinn og upp eftir taugunum, oddmjóar, himnurendar, oft grænar neðan til, fjólubláar ofar (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Afbrigði

Vallarsveifgras er mjög breytileg tegund og hefur því verið skipt niður í nokkrar deilitegundir (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Greining

Líkist hásveifgrasi, varpasveifgrasi og fjallasveifgrasi. Hásveifgras hefur oft stærri, fíngerðari og grænni punt en öruggasta einkennið er 4–8 mm löng, oddmjó slíðurhimna. Varpasveifgras hefur ljósgrænni blöð og punt, lengdarmunur axagnanna er einnig gott einkenni. Vallarsveifgras þekkist frá fjallasveifgrasi á skriðulum renglum sínum með samanbrotnum, löngum blaðsprotablöðum.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Valllendi og tún, áburðarríkir staðir, hálfdeigjur og mýrar til fjalla (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Vallarsveifgras (Poa pratensis)