Silfurhnappur (Achillea ptarmica)

Mynd af Silfurhnappur (Achillea ptarmica)
Mynd: Hörður Kristinsson
Silfurhnappur (Achillea ptarmica)

Útbreiðsla

Silfurhnappur er nokkuð útbreiddur í villtu landi í Árnessýslu, einkum meðfram Ölfusá. Einnig finnst hann sem slæðingur við bæi vítt og breytt um landið. Hæstu fundarstaðir hans eru í 380 m hæð í Víðidal í Lóni og 370 m á Bakkaseli í Öxnadal (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Nytjar

Hnerraduft var áður fyrr unnið úr blómunum og rótunum (Ingólfur Davíðsson og Ingimar Óskarsson 1950).

Búsvæði

Rakt graslendi, lækjar- og árbakkar eða heima við bæi (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Fjölær jurt, 20–40 sm á hæð með oddmjóum, sverðlaga, tenntum blöðum. Blómin eru mörg saman í fremur litlum körfum með hvítum, tungukrýndum jaðarblómum (Hörður Kristinsson 1998).

Blað

Stöngullinn er með stakstæðum blöðum. Laufblöðin sverðlaga, oddmjó, tennt, stilklaus, hálfgreipfætt með grófum tannsepum við fótinn, 2–5 sm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Jaðarblómin tungukrýnd, hvít, krónublöðin 4–5 mm á lengd. Hvirfilblómin pípukrýnd, grænhvít. Krónupípan klofin efst með fimm stutta, þrístrenda krónuflipa. Reifablöðin tungulaga, græn með svörtum jaðri, þéttgráloðin (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldin án svifkrans (Lid og Lid 2005).

Afbrigði

Afbrigði silfurhnapps með fylltum eða ofkrýndum blómum er oft ræktað í görðum.

Greining

Auðþekkt frá öðrum íslenskum plöntum, blómkörfurnar minna á körfur vallhumalsins en eru stærri og dreifðari. Auðþekkt frá vallhumli á laufblöðunum (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðsla - Silfurhnappur (Achillea ptarmica)
Útbreiðsla: Silfurhnappur (Achillea ptarmica)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |