Mynd: Hörður Kristinsson
Jakobsfífill (Erigeron borealis)
Útbreiðsla
Algengur um allt land en er síst að finna uppi á hálendinu (Hörður Kristinsson 1998).
Almennt
Jakobsfífill er líklega nefndur eftir Jakobi postula (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Nytjar
Jakobsfífill hefur verið notaður útvortis gegn bólgum, bruna og sárum (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Líffræði
Jakobsfífill inniheldur m.a. ilmolíur, rútín, beiskjuefni, slímefni og ýmis steinefni. Jurtin getur haft eituráhrif á lifur ef hans er neytt (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998)!
Búsvæði
Grasmóar, gilbrekkur og hlíðar (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).
Lýsing
Meðalhár fífill (10–25 sm), hærður með hvítar eða bleikfjólubláar blómkörfur. Blómgast í júní.
Blað
Stöngullinn loðinn með lensulaga, oddmjóum, stilklausum blöðum, stofnblöðin aflöng og ávöl í endann en oft broddydd (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin eru í körfum sem eru oftast 1–1,5 sm í þvermál, venjulega ein karfa á stöngulendanum en stundum fleiri á greindum stöngli. Körfurnar umluktar kransi af lensulaga reifablöðum að utanverðu. Reifablöðin rauð í oddinn og gráloðin, að mestu aðlæg, hringur af hvítum eða bleikfjólubláum, mjóum tungukrónum næst fyrir innan reifablöðin. Hvirfilblómin í miðju körfunnar með mjóum gulum pípukrónum, umkringdum svikranshárum sem oft eru heldur lengri en pípukrónurnar sjálfar (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist helst fjallakobba sem þó er lágvaxnari með hlutfallslega stærri körfu, oftast eru einhver stofnblöð spaðalaga, þ.e. niðurmjó með kringluleitum og snubbóttum enda, einnig hefur fjallakobbinn útstæðari reifablöð.
Útbreiðsla: Jakobsfífill (Erigeron borealis)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp