Mynd: Hörður Kristinsson
Hóffífill (Tussilago farfara)
Mynd: Hörður Kristinsson
Hóffífill (Tussilago farfara)
Útbreiðsla
Slæðingur sem hefur breiðst mjög út á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi. Hann mun einnig vera kominn til nokkurra annarra bæja á Suðvesturlandi og til Akureyrar (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Almennt
Latneska heitið Tussilago er dregið af latnesku orðunum tussis sem þýðir hósti og argo sem þýðir að losna við (Lid og Lid 2005).
Nytjar
Hóffífill hefur mikið verið notaður gegn hósta, sérstaklega þurrum, heitum hósta og asma (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Líffræði
Í hóffífli eru efni sem talin eru geta valdið krabbameini (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Búsvæði
Röskuð svæði, ruslahaugar og gamlir ruðningar (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Meðalhá planta (15–20 (30) sm) sem blómstrar litlum, gulum blómkörfum í apríl–maí en að blómgun lokinni vaxa upp og stór og mikil hjartalaga blöð.
Blað
Stöngullinn er lóhærður, þéttblöðóttur með aðlægum, breiðfættum, um 1,5 sm löngum brúnfjólubláum blöðum. Hann ber eina körfu snemma á vorin en stofnblöðin vaxa síðar upp af jarðstönglum. Þau eru á löngum, 3–5 mm gildum stilk. Blaðkan er hjartalaga eða nýrlaga, óreglulega tennt, 5–20 sm í þvermál, hárlaus á efra borði en neðra borð og blaðstilkar með hvítleitri hárló (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómkörfurnar eru 2–3 sm í þvermál. Jaðarblómin gul með afar mjórri (um 0,5 mm) tungukrónu. Hvirfilblómin pípukrýnd, með fimmtenntri, 3 mm breiðri krónu. Fræflar fimm, samgrónir í hring um stílinn sem hefur klofið fræni. Reifablöð körfunnar í einföldum, aðlægum kransi, græn til jaðranna en brúnfjólubláleit í oddinn og við miðtaugarnar (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist engri annarri íslenskri tegund, auðþekktur frá öðrum fíflum á þéttblöðóttum stönglum og stórum og grófstilkuðum blöðum sem minna á rabbabara.
Útbreiðsla: Hóffífill (Tussilago farfara)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp