Mynd: Hörður Kristinsson
Stúfa (Succisa pratensis)
Útbreiðsla
Finnst aðeins syðst á landinu, í Vestur-Skaftafellssýslu, Mýrdal og undir Eyjafjöllum, í Vestmannaeyjum og á örfáum stöðum sunnan á Reykjanesskaga (Hörður Kristinsson 1998).
Búsvæði
Grasbrekkur, einkum móti suðri (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Fremur lágvaxin planta (15–35 sm) með allstór laufblöð í stofnhvirfingu og mörg, fjólublá blóm í þéttum kolli. Blómgast í júlí–ágúst.
Blað
Stöngullinn langur, blaðfár. Stofnblöðin stilkuð, í hvirfingu, lensulaga eða oddbaugótt, allstór, 3–12 sm á lengd og 2–5 sm á breidd, nær heilrend, gishærð (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin eru mörg og standa þétt í hnöttóttum kolli sem er 1,5–2 sm í þvermál. Einstök blóm 5–6 mm í þvermál, bláfjólublá, sjaldnar hvít, fjórdeild, með fjórum fræflum og einum stíl. Bikar og króna hvíthærð utan (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinin eru hnetur með svifkransi (Stefán Stefánsson 1948).
Greining
Líkist helst rauðkolli sem er þó með rauðari og flatari koll sem líkist fremur körfu í lögun. Eins hefur rauðkollur fjaðurskipt blöð en ekki stúfan.
Útbreiðsla: Stúfa (Succisa pratensis)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp