Mynd: Hörður Kristinsson
Fjallafræhyrna (Cerastium nigrescens)
Útbreiðsla
Fjallafræhyrna er sjaldan á láglendi en er algeng hátt til fjalla. Að jafnaði vex hún frá 600 til 1500 m hæð og er venjulega algeng eftir að komið er í þessa hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Háfjallamelar og hlíðar.
Lýsing
Lágvaxin jurt (5–15 sm), hærð með hvít blóm. Blómgast í júní–júlí.
Blað
Stöngullinn kirtilhærður með gagnstæðum, 0,8–1,5 sm löngum og 4–8 mm breiðum blöðum. Blöðin öfugegglaga eða oddbaugótt, stilklaus, loðin, einkum á röndunum (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin eru 1–1,5 sm í þvermál. Krónublöðin fimm, hvít, klofin í endann, þriðjungi til nær helmingi lengri en bikarblöðin sem eru 6–8 mm löng, oddmjó, kirtilhærð, himnurend. Fræflar tíu og ein fræva með fimm stílum (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Tannhýði með tíu tönnum (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Hún líkist mjög músareyra, sem er algengt frá láglendi upp í sömu hæð og fjallafræhyrnan. Helstu einkenni sem greina hana frá músareyra eru breiður og ávalur bikarbotn, breiðari bikarblöð með ávalari oddi, aldinið breiðara, fagurgrænni litur og minni loðna á blöðum og heldur styttri krónublöð.
Útbreiðsla: Fjallafræhyrna (Cerastium nigrescens)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp