Holurt (Silene uniflora)

Mynd af Holurt (Silene uniflora)
Mynd: Hörður Kristinsson
Holurt (Silene uniflora)
Mynd af Holurt (Silene uniflora)
Mynd: Hörður Kristinsson
Holurt (Silene uniflora)

Útbreiðsla

Algeng um allt land frá láglendi upp í um 700 m hæð þar sem malarborinn jarðvegur eða vikur er fyrir hendi, ekki síst á öræfunum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Almennt

Holurtin er þekkt undir mörgum nöfnum, svo sem fálkapungur og geldingagras. Börn kalla hana oft flugnabú eða flugublóm af því að flugur álpast niður í belgvíðan bikarinn. Útbreiddur misskilningur er að plantan sé flugnaæta (Hörður Kristinsson 1998). Holurt hefur einnig verið kölluð blöðrujurt, flugnapungur, galtarpungur, melapungur, prestapungur, pungagras og hjartagras vegna aldinlögunarinnar. Þar sem holurt hefur örvandi verkun á meltingu hefur hún einnig gengið undir nafninu laxerarfi (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Rótina má mala og nýta í mjöl (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Búsvæði

Melar og sandar (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Lágvaxin jurt (10–25 sm) með belgmiklum bikar og hvítum yfirsætnum blómum. Blómgast í júní.

Blað

Margir stönglar vaxa upp af sömu rót, oft nokkuð jarðlægir. Laufblöðin gagnstæð, heilrend, hárlaus, lensulaga eða mjóoddbaugótt, 1–2 sm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin fá saman eða einstök á stöngulendunum, fimmdeild. Krónan hvít, um 2 sm í þvermál. Krónublöðin 1,5–2,5 sm á lengd, með skerðingu í oddinn. Bikarinn samblaða, klukkulaga og útbelgdur, oftast fimmtenntur, bleikfjólublár með dekkra æðaneti, um 1,5 sm á lengd. Fræflar tíu með aflöngum, dökkum frjóhirslum. Ein fræva með fjórum til sex stílum (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Auðþekkt á útblásnum bikar.

Útbreiðsla - Holurt (Silene uniflora)
Útbreiðsla: Holurt (Silene uniflora)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |