Mynd: Hörður Kristinsson
Haugarfi (Stellaria media)
Mynd: Hörður Kristinsson
Haugarfi (Stellaria media)
Útbreiðsla
Algengur um allt land, fylgir mjög búsetu manna en berst víða með búfjáráburði. Hann berst með sauðfé langt inn á öræfin þar sem hann hann er mest áberandi í kindagötum og skútum þar sem sauðfé safnast saman. Hann nýtir sér einnig áburð sjófugla og berst um fuglabjörg með þeim og varpstöðvar máfa lengra inni í landi (Hörður Kristinsson 1998).
Almennt
Hefur einnig verið nefndur taðarfi (Ágúst H. Bjarnason 1994).
Nytjar
Haugarfi er góður í salöt en einnig er hann nokkuð notaður í ýmis smyrsl gegn bólgum, sárum og exemi. Hann þykir einkar góður gegn kláða (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Haugarfa má einnig nota til litunar en með honum, brúnspæni og álúni má ná fram dökkbláum eða fjólubláum lit (Ágúst H. Bjarnason 1994).
Líffræði
Haugarfi inniheldur m.a. slímefni, sápunga og ýmis næringarsölt (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Búsvæði
Áburðarríkir staðir, t.d. fuglabjörg, kindagötur og garðar (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Fremur lágvaxin jurt (5–20 sm), fagurgræn, með breiðegglaga laufblöð og lítil hvít blóm. Blómgast í maí–nóvember.
Blað
Einær jurt. Laufblöðin gagnstæð, breiðegglaga, 5–30 mm löng, lin og safarík, sum á randhærðum stilk. Stöngullinn með tveim hárabeltum eftir endilöngu (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Fimmdeild blóm. Krónublöðin hvít, klofin nær niður í gegn svo þau virðast tíu, oftast styttri en bikarblöðin sem eru græn, egglensulaga, með glærum himnufaldi, 4–6 mm á lengd. Fræflar tíu, ein fræva með þrískiptu fræni (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Hýðisaldin (Stefán Stefánsson 1948).
Greining
Líkist helst stjörnuarfa en haugarfinn þekkist á því hve krónublöðin eru stutt og laufblöðin breið miðað við lengd.
Útbreiðsla: Haugarfi (Stellaria media)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp