Sortulyng (Arctostaphylos uva-ursi)

Mynd af Sortulyng (Arctostaphylos uva-ursi)
Mynd: Hörður Kristinsson
Sortulyng (Arctostaphylos uva-ursi)
Mynd af Sortulyng (Arctostaphylos uva-ursi)
Mynd: Hörður Kristinsson
Sortulyng (Arctostaphylos uva-ursi)

Útbreiðsla

Sortulyngið er algengt í sumum landshlutum en vantar annars staðar. Það er viðkvæmt fyrir vetrarbeit og hefur trúlega horfið af ýmsum svæðum þar sem vetrarbeit var mikil. Í seinni tíð, eftir að beit létti breiðist það nokkuð ört út aftur. Það vex frá láglendi upp í um 500 m hæð. Hæsti skráði fundarstaður er 650 m sunnan í Skessuhrygg í Höfðahverfi og 550 m í Sandmúladalsdrögum á Bárðdælaafrétti (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Aldinin kallast lúsamulningar og er vinsæl fæða og vetrarforði hagamúsa (Hörður Kristinsson - floraislands.is). Einnig má geta þess að áður fyrr bar fólk sortulyng á sér í litlum poka til varnar draugum (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Sortulyng má nota gegn nýrnasteinum og sýkingum í þvagfærum og blöð sortulyngs voru að auki áður mikið notuð til litunar og blekgerðar og berin til sútunar (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Sortulyng inniheldur arbútín, metýlarbútín, barksýrur, flavona, allantóin og ýmsar lífrænar sýrur svo eitthvað sé nefnt. Í líkama okkar breytist arbútínið í hydrókínón sem er sótthreinsandi en getur valdið eitrun ef sortulyngs er neytt í langan tíma (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Skaðsemi

Í líkama okkar breytist arbútínið í sortulyngi í hydrókínón sem er sótthreinsandi en getur valdið eitrun ef sortulyngs er neytt í langan tíma (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Lyngmóar og skóglendi eru kjörlendi sortulyngsins (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Sígrænn, skriðull runni (5–15 sm hár) sem blómstar hvítum klukkum en þroskar fagurrauð aldin á haustin. Blómgast í maí–júní.

Blað

Blöðin eru þykk og gljáandi, heilrend, venjulega öfugegglaga, stundum nær oddbaugótt, stuttstilkuð. Blaðkan 12–18 mm á lengd og 6–8 mm á breidd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru nokkur saman í þéttum, hnöttóttum, drúpandi klasa. Krónan samblaða, krukkulaga með þröngu opi eða nær hnöttótt, 4–5 mm á hvern veg, ljósmóleit, bleikleit eða nær hvít, oftast rauðari í opið; skerðingar grunnar. Bikarblöðin örstutt, bleik, himnukennd. Fræflar tíu með dökkar frjóhirslur sem hafa tvo granna, langa króka. Ein fræva (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið líkist beri og er um 1 sm í þvermál en er þurrt og mjölkennt innan (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Það líkist rauðberjalyngi en lauf þess hefur ofurlítið tennta og áberandi niðurorpna jaðra.

Útbreiðsla - Sortulyng (Arctostaphylos uva-ursi)
Útbreiðsla: Sortulyng (Arctostaphylos uva-ursi)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |