Beitilyng (Calluna vulgaris)

Mynd af Beitilyng (Calluna vulgaris)
Mynd: Hörður Kristinsson
Beitilyng (Calluna vulgaris)

Útbreiðsla

Beitilyng er mjög algengt í sumum landshlutum en vantar alveg annars staðar, t.d. er ekki vitað um það á Vestfjörðum og mjög óvíða í Húnavatnssýslu. Það vex einkum frá láglendi og upp í 600 m hæð. Hæstu fundarstaðir þess eru í 750 m í Böggvisstaðafjalli við Dalvík, 730 m í Belgsárfjalli við Fnjóskadal og 700 m í Hofsskál í Svarfaðardal og Gæsafjöllum norðan Mývatns (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Áður fyrr var beitilyng gjarna haft í húsum þar sem því var trúað að það fældi frá mýs og rottur (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Eins var því trúað að ef það blómgaðist mjög í toppinn yrði veturinn harður en ef greinaendar voru blómlausir yrði hann mildur (Ágúst H. Bjarnason 1994). Grænir blaðsprotar beitilyngsins eftirsóknarverðir til vetrarbeitar fyrr á öldum (Hörður Kristinsson 1998).

Nytjar

Beitilyng er sérlega gott við blöðrubólgu og fleiri sýkingum í þvagfærum. Eins þykir gott að drekka te af jurtinni til eiga hægara með svefn og beitilyngssmyrsl þykja góð gegn gigt og öðrum bólgum (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Beitilyng inniheldur m.a. sítrónusýru, fúmarsýru, beiskjuefnið erikódín, barksýrur, arbútín og flavona (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Kjörlendi beitilyngsins eru móar og hlíðar, einkum inn til dala og heiða (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Sígrænt lyng með 10–20 sm háum, uppsveigðum greinum. Það blómstrar bleikum, drúpandi blómum í ágúst–september.

Blað

Laufblöðin sígræn, þétt krossgagnstæð, aðeins um 2 mm á lengd og 0,5 mm á breidd, standa lítið út frá greinunum og virðast þær því ferstrendar (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru stuttleggjuð, þétt saman í klösum, fjórdeild, um 3 mm á breidd. Hinn bleikrauði litur blómanna stafar af bikarblöðunum sem eru sporbaugótt, lengri en krónublöðin og þekja þau að mestu. Randhærð, dökkrauðgræn háblöð liggja að bikarnum neðan til. Átta fræflar, ein fræva með einum rauðum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið nær hnöttótt hnýðisaldin (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðsla - Beitilyng (Calluna vulgaris)
Útbreiðsla: Beitilyng (Calluna vulgaris)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |