Krækilyng (Empetrum nigrum)

Mynd af Krækilyng (Empetrum nigrum)
Mynd: Hörður Kristinsson
Krækilyng (Empetrum nigrum)
Mynd af Krækilyng (Empetrum nigrum)
Mynd: Hörður Kristinsson
Krækilyng (Empetrum nigrum)

Útbreiðsla

Ein af algengustu jurtum landsins (Hörður Kristinsson 1998).

Almennt

Áður fyrr voru krækiber notuð til litunar (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Nytjar

Krækiber eru töluvert nýtt til manneldis, bæði fersk, í sultu, safti, hlaupi eða víni. Saft af berjunum þykir einkar barkandi og því góð við særindum og blæðingum í meltingarvegi (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Krækiber innihalda m.a. barksýrur og vítamín (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Afar fjölbreytilegt land, lyngmóar, melar, mosaþembur, hraun og jafnvel mýrlendi. Það er oft fremur á berangri en á skjólríkum stöðum.

Lýsing

Jarðlægur, sígrænn runni með uppsveigðum sprotum sem rísa oft um 5–12 sm frá jörðu. Blómgast í apríl–maí.

Blað

Sprotarnir jarðlægir, viðarkenndir og blaðlausir neðan til, þéttblöðóttir í endann. Blöðin striklaga, snubbótt, 4–6 mm á lengd og um 1,5 mm á breidd, þykk og hol að innan. Í raun eru blaðrendurnar niðurorpnar, mynda hólk og verður áberandi hvít rönd á neðra borði þar sem blaðrendurnar koma saman (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin örsmá, lítið áberandi, þrídeild, umkringd nokkrum kringlóttum, rauðum háblöðum. Krónublöðin dökkrauð, um 2–2,5 mm á lengd, spaðalaga, útsveigð yfir bikarblöðin sem eru móleit, íhvolf og nær kringlótt. Fræflarnir þrír, 5–7 mm langir, dökkblárauðir og standa langt út úr blóminu. Frævan ein (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Berkennt steinaldin með sex til níu steinum. Aldinið er í fyrstu grænt, verður síðan rautt og að lokum svart við þroskun, 5–8 mm í þvermál (Hörður Kristinsson 1998). Að auki hafa fundist hvít krækiber á fáeinum stöðum (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Afbrigði

Krækilyngið skiptist í tvær deilitegundir, ssp. nigrum sem hefur einkynja blóm og finnst aðeins á láglendi og spp. hermaphroditum sem hefur tvíkynja blóm og grófari blöð, hún er sú deilitegund sem er miklu algengari hér, bæði til fjalla og á láglendi. Hún ber stærri krækiber og hanga fræflarnir venjulega enn á þeim þegar þau eru þroskuð. Eins er litningatala deilitegundanna mismunandi (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist helst óblómguðu bláklukkulyngi en það hefur heldur grófari blöð.

Útbreiðsla - Krækilyng (Empetrum nigrum)
Útbreiðsla: Krækilyng (Empetrum nigrum)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |