Baunagras (Lathyrus japonicus)

Útbreiðsla

Fremur sjaldgæft. Það er afar viðkvæmt fyrir beit en getur orðið nokkuð áberandi þar sem lengi hefur verið beitarfriðun eða lítil beit, eins og t.d. á Ströndum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Baunagrasið vinnur köfnunarefni úr andrúmsloftinu með aðstoð gerla í rótarhnúðum og bætir þannig jarðveginn eins og ýmsar aðrar tegundir af ertublómaætt. Má oft sjá stóra, græna, kringlótta ræktarbletti á sendnum fjörukömbum þar sem baunagrasið hefur náð að breiða úr sér, t.d. á Hornströndum. Það er annars eftirsótt af sauðfé og viðkvæmt fyrir beit (Hörður Kristinsson 1998).

Vistgerðir

Sendinn jarðvegur, oftast nálægt sjó, ýmist við fjörukamba eða uppi á sjávarbökkum, sjaldnar í klettum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Fremur lágvaxin planta (15–25 sm) með einsamhverf, fjólublá blóm. Blómgast í júlí.

Blað

Laufblöðin fjaðurskipt með þremur til fjórum smáblaðpörum. Smáblöðin sporöskjulaga eða oddbaugótt, 15–20 mm á lengd og um 5–10 mm á breidd, endablaðið og oft næsta blaðpar ummyndað í vafþræði. Axlablöðin skakkhjartalaga eða skakkþrístrend, oft um 1 sm á breidd og 1,5 sm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru einsamhverf, 2–2,5 sm á lengd, oftast tvö til fjögur saman í legglöngum klasa í blaðöxlunum. Krónublöðin fimm, fjólublá, með hliðsveigðum fána sem oft er meir en 1 sm á breidd. Bikarinn 8–9 mm á lengd með fimm tönnum. Fræflar tíu. Ein fræva (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Flatur belgur, 4–7 sm á lengd, langyddur (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Baunagrasið þekkist frá giljaflækju á stærri og rauðari blómum, færri og breiðari smáblöðum.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Sendinn jarðvegur, oftast nálægt sjó, ýmist við fjörukamba eða uppi á sjávarbökkum, sjaldnar í klettum (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Baunagras (Lathyrus japonicus)