Mjaðjurt (Filipendula ulmaria)

Mynd af Mjaðjurt (Filipendula ulmaria)
Mynd: Hörður Kristinsson
Mjaðjurt (Filipendula ulmaria)
Mynd af Mjaðjurt (Filipendula ulmaria)
Mynd: Hörður Kristinsson
Mjaðjurt (Filipendula ulmaria)

Útbreiðsla

Algeng í sumum landshlutum, einkum á Suður- og Vesturlandi og í Eyjafirði (Hörður Kristinsson 1998).

Almennt

Áður fyrr var mjaðjurt notuð við gerð mjaðar. Mjaðarkerin voru smurð að innan með blöðunum og þau jafnframt notuð sem krydd í ölið. Eins var mjaðjurt notuð til að komast að því hver hefði gerst sekur um stuld (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Mjaðjurt hefur verið notuð sem lækningjurt gegn miklum magasýrum, sárum og bólgum í maga. Eins er hún góð gegn gigt og bólgu í liðum, vöðvum og taugum (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Mjaðjurt inniheldur m.a. barksýrur og ilmolíur sem aftur innihalda salisýlaldehýð og salisýl (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Deigir grasmóar, graslautir, skóglendi eða mýrar.

Lýsing

Hávaxin (30–70 sm), kraftmikil planta með smáum, ilmríkum, hvítum blómklösum. Blómgast í júlí.

Blað

Blöðin stakfjöðruð, bilbleðótt, stilkuð, með axlablöðum við blaðfótinn. Smáblöðin tennt, dökkgræn og gljáandi á efra borði en ljósgrágræn og þétt- og stuttloðin á neðra borði, endasmáblöðin þrískipt (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin mörg saman í sveipkenndum skúfum, 6–8 mm að stærð, fimmdeild, mjólkur- eða gulhvít. Krónublöðin naglmjó, ávöl í endann, töluvert lengri en bikarblöðin sem eru oddmjó, hærð að utan. Fræflar allmargir. Frævur nokkrar saman í þyrpingu í miðju blómsins, hver um sig með einum stíl og þykku fræni í toppinn (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðsla - Mjaðjurt (Filipendula ulmaria)
Útbreiðsla: Mjaðjurt (Filipendula ulmaria)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |