Hrútaber (Rubus saxatilis)

Mynd af Hrútaber (Rubus saxatilis)
Mynd: Hörður Kristinsson
Hrútaber (Rubus saxatilis)
Mynd af Hrútaber (Rubus saxatilis)
Mynd: Hörður Kristinsson
Hrútaber (Rubus saxatilis)

Útbreiðsla

Algengt á láglendi um allt land (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Tegundin er einnig nefnd hrútaberjaklungur en klungur merkir þyrnir (Ágúst H. Bjarnason 1994). Renglur plöntunnar eru nefndar skollareipi eða tröllareipi og er það vísun í þá þjóðtrú að þær mátti nota til að fjötra niður illa vætti (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Nytjar

Berin eru góð til átu, jafnt fersk sem í sultu. Eins hefur jurtin lækningarmátt, t.d. þykir te úr berjadufti gott gegn lausum hægðum barna (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Tegund þessi inniheldur m.a. C-vítamín, barksýrur og fleiri sýrur (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Það vex í frjósömum brekkum og bollum, einnig oft í skógarbotnum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Jarðlæg planta (10–20 sm) með þrífingruð laufblöð og hvít, fimmdeild blóm. Þroskar rauða berjaklasa. Blómgast í júlí.

Blað

Myndar stundum mjög langar, jarðlægar renglur. Laufblöðin stilklöng, þrífingruð, blaðstilkar loðnir og oft með örsmáum þyrnum. Smáblöðin tvísagtennt, egglaga eða tígullaga, hliðarsmáblöðin á örstuttum stilk eða stilklaus, miðsmáblaðið á nokkru lengri stilk, axlablöð lítil, 3–5 mm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru fimmdeild, 8–10 mm í þvermál. Krónublöðin hvítleit, spaðalaga, naglgrönn. Bikarinn klofinn langt niður. Bikarblöðin græn, loðin, oddmjó, 5–6 mm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinin eru rauð, gljáandi steinaldin, 7–8 mm í þvermál, sitja nokkur þétt saman, hvert með einum steini utan um fræið (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Auðþekkt í blóma eða aldini. Blómlaus líkist tegundin jarðaberjalyngi en blöð hrútaberjalyngsins má þekkja á stilk miðsmáblaðsins, minni hæringu og á örfínum þyrnum á blaðstilkunum.

Útbreiðsla - Hrútaber (Rubus saxatilis)
Útbreiðsla: Hrútaber (Rubus saxatilis)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |