DÝR

Íslenskar dýrategundir skipta þúsundum. Á landi og í ferskvatni er vitað um meira en 2.000 tegundir og um 2.500 eru þekktar innan íslenskrar efnahagslögsögu. Heildarfjöldinn er þó eflaust umtalsvert meiri, enda eru fjölmargir tegundaauðugir dýrahópar í íslenskri náttúru lítt rannsakaðir.

Þúsundir dýrategunda í íslenskri náttúru mega sín lítils í samanburði við nágrannalönd þar sem tegundir eru taldar í tugþúsundum. Á það einkum við um dýraríki lands og ferskvatns. Þar kemur til einangrun landsins langt úti í hafi fjarri meginlöndum. Ef horft er til jarðstöðu ættu miklu fleiri tegundir smádýra að geta lifað hér góðu lífi. Lífríki landsins hefur væntanlega verið ólíkt því sem nú er og mun fjölbreyttara áður en ísaldir settu mark sitt á það.

Möguleikar smádýra á landi og í ferskvatni til að berast til landsins eru umtalsverðum takmörkunum háðir. Sömu sögu er af plöntunum að segja og það takmarkar enn frekar möguleika smádýra á að setjast hér að, því lífsskilyrði margra tegunda tengjast vissum plöntum og gróðurfari.

Þegar dýralíf landsins byggðist upp á ný eftir ísöld hefur það að langmestu leyti borist austan að frá Evrópu. Dýraríki lands og ferskvatns er evrópskt að uppruna en tegundir sem komið hafa úr vestri frá Norður-Ameríku heyra til undantekninga. Í hafinu mótast dýralífið hins vegar af ríkjandi umhverfisþáttum þar sem aðrar útbreiðsluhindranir eru ekki að verki. Lífríki Íslandsmiða er því af þeim toga sem aðstæður í Norður-Atlantshafi og Dumbshafi ákveða.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir í dýrafræði.  Áhersla er lögð á að afla grunnupplýsinga um dýraríki landsins; hvaða tegundir hér er að finna, hvar þær halda sig og á hvers konar búsvæðum. Einnig fara fram rannsóknir á lífsháttum og vistfræði mikilvægra tegunda, samfélögum þeirra og samspili við gróður og ýmsa umhverfisþætti. Þar má nefna reglubundnar athuganir á fuglum, villtum spendýrum, sér í lagi íslenska refastofninum, auk flokkunarfræðilegra rannsókna á smádýrum á landi og á sjávardýrum. Grunnupplýsingar um dýraríki lands og sjávar, eins og tegundafjölbreytni, útbreiðslu tegunda og kjörlendi, eru vistaðar í gagnagrunnum og er umfjöllun um hluta þeirra í flokkunarkerfi dýra. Í vísindasöfnum stofnunarinnar eru varðveitt nokkrar milljónir eintaka af öllum hópum dýraríkisins.