Safnið opnað á ný

25.01.2007

Náttúrugripasafnið á Hlemmi var opnað aftur fimmtudaginn 24. janúar en safnið hefur verið lokað frá 12. desember 2006 þegar mikill vatnsskaði varð í sýningarsal á 4. hæð. Í stað geirfuglsins sem keyptur var til landsins 1971 verður þar nú til sýnis forvitnilegt líkan af geirfugli sem Kristján Geirmundsson hamskeri frá Akureyri gerði úr langvíuhömum á árinu 1938.

Geirfuglinn í geymslu Þjóðminjasafns

Líkan Kristjáns Geirmundssonar af geirfugli frá 1938. Ljósm. Anette Meier.

Í búri geirfuglsins í Náttúrugripasafninu hefur nú verið komið fyrir líkani af geirfugli, en það gerði Kristján Geirmundsson hamskeri á Akureyri á árinu 1938 úr fuglshömum og fiðri. Í frétt Íslendings (51. tbl. 1938) segir að stærð og hlutföll séu hárnákvæm, því þar hafi Kristján farið eftir ítarlegum mælingum erlendra vísindaritara. Gaman er að bera saman líkanið og uppstoppaða geirfuglinn NÍ en líkanið ber nokkurn svip af álku sem samkvæmt DNA-greiningu er reyndar sú tegund svartfugla sem er skyldust geirfuglinum.

Kristján Geirmundsson (1907–1975) hamskeri var Akureyringur og sjálflærður í faginu. Hann fékkst í mörg ár við uppsetningu fugla en geirfuglslíkaninu var fyrst og fremst ætlað að gefa sem réttasta hugmynd um stærð og útlit geirfuglsins. Vitað er að Kristján gerði nokkrum árum fyrr líkan að geirfugli fyrir Jóhannes á Borg, sem átti gott safn fugla.

Líkan Kristjáns var til sýnis í Náttúrugripasafni Akureyrar sem Náttúrufræðistofnun rak fram til 2002 en þá var því lokað.

Opnunartími safnsins

Sýningarsalirnir á Hlemmi verða opnir almenningi sem fyrr, fjóra eftirmiðdaga í viku, þriðjudaga, fimmtudaga, laugardaga og sunnudaga kl. 13.30–16. Á miðvikudagsmorgnum er opið sérstaklega fyrir skólahópa kl. 9–12 en eftir samkomulagi aðra daga. Panta þarf tíma fyrir hópa í síma 5900500 kl. 9–16 virka daga.