Ár liðið frá Mýraeldum

Hvaða áhrif höfðu Mýraeldar á lífríki?

Þann 30. mars 2007 er ár liðið frá því að hinir miklu sinueldar komu upp á Mýrum en þeir geisuðu með hléum í þrjá sólarhringa. Eldarnir fóru yfir 72 km2 landsvæði og eru mestu sinueldar sem þekktir eru í gjörvallri Íslandssögunni. Mýraeldar voru líkastir náttúruhamförum og stóð mikil barátta við að hemja útbreiðslu þeirra og koma í veg fyrir að þeir grönduðu mannvirkjum og búpeningi á Mýrum. Slökkvistarf tókust giftusamlega og lítið sem ekkert eignatjón varð í eldunum.

 

Vegna stærðar landsins sem brann sköpuðust einstakar aðstæður á Mýrum til að kanna áhrif sinuelda á lífríki lands og vatna. Vorið 2006 var unnin áætlun og hafnar viðamiklar rannsóknir á Mýrum í samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs, en Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur einnig hafið þátttöku í þeim. Ráðgert er að rannsóknirnar standi í fimm ár en ríkisstjórnin veitti fé til þeirra.

Sumarið 2006 var brunasvæðið á Mýrum kortlagt nákvæmlega, gróðurfar þar rannsakað, sveppir kannaðir, fuglar taldir og smádýrum safnað og vötn og lífríki þeirra rannsökuð. Einnig var beitt fjarkönnun við að greina útbreiðslu og ákafa eldanna. Í flestum þessum rannsóknum var borið saman brunnið land og óbrunnið meðfram brunasvæðinu.

Fyrstu niðurstöður

Fyrstu niðurstöður rannsóknanna voru kynntar á Fræðaþingi landbúnaðarins í febrúar 2007. Í stuttu máli eru helstu niðurstöður eftirfarandi:

Útbreiðsla og gangur eldanna

Á fyrsta degi, hinn 30. mars, breiddust eldarnir mjög hratt út undan norðaustan strekkingi og fóru frá upptökum um 14 km leið yfir mýraflóa fram til sjávar á liðlega fjórum klukkustundum. Áætlað er að meðalhraði eldtungunnar hafi verið um 3,2 km á klukkustund. Vindur var hægari á svæðinu 31. mars, dofnuðu þá eldarnir og tök náðust á útbreiðslu þeirra. Þann 1. apríl herti vind að nýju og gusu eldar þá upp aftur á suðurhluta brunasvæðisins en með slökkviaðgerðum tókst að komast fyrir þá er vind hægði seinni hluta dagsins. Gögn frá gervitunglum sem fóru nokkrum sinnum yfir landið meðan eldarnir brunnu hafa gefið góða mynd af útbreiðslu og orkulosun frá eldunum. Ber þeim vel saman við reynslu manna á jörðu niðri.

Gróðurkortlagning og áhrif á gróðurfar

Gróðurkortlagning brunasvæðisins leiddi í ljós að land sem eldarnir fóru um er samtals 72,3 km² að flatarmáli, að vötnum og tjörnum meðtöldum. Flóar og mýrar eru ríkjandi á svæðinu og eru samtals 61 km2. Úttekt á gróðurfari sumarið 2006 leiddi í ljós að bruninn hefur haft veruleg áhrif á gróður. Flóra brunninna svæða var töluvert frábrugðin flóru óbrunnina svæða og hefur bruninn haft hvað mest áhrif á smárunna og barnamosa (Sphagnum spp.). Færri tegundir háplantna og fléttna fundust á brunna svæðinu en því óbrunna. Sumaruppskera var minni í brunnum reitum en óbrunnum og lífmassi, sem nam um tveimur tonnum á hektara tapaðist þegar sina og kvistur brann. Endurvöxtur varð þó nokkur, sérstaklega af klófífu og störum í lægðum, og klófífu, bláberjalyngi og fjalldrapa í þúfum. Líklegt er að þykkt mosalag þúfnanna, minni sina og há vatnsstaða í lægðum, hafi varið brum smárunnanna og vaxtarsprota klófífunnar fyrir eldinum.

Smádýr og fuglar

Smádýr voru veidd í gildrur á brunnu og óbrunnu landi og reyndust þau mun fleiri á brunnu landi. Einnig mældist meiri fjölbreytileiki dýra í mælireitum á brunnu landi. Heildarþéttleiki mófugla var marktækt hærri á brunna svæðinu samanborið við óbrunnin svæði. Þéttleiki flestra fuglategunda reyndist svipaður innan sem utan brunna svæðisins, en bæði hrossagaukur og þúfutittlingur voru marktækt algengari á brunnu landi en óbrunnu, þvert á það sem búist hafði verið við. Líklega stafar aukinn þéttleiki þessara tegunda af bættum fæðuskilyrðum.

Umhverfi vatna og lífríki

Mæliniðurstöður á eðlis- og efnaþáttum í vötnum á Mýrum sumarið 2006 benda ekki til þess að Mýraeldar hafi haft umfangsmikil skammtímaáhrif á vatnsgæði. Styrkur langflestra efna í vötnum jafnt á óbrunnu sem brunnu svæði er áþekkur því sem mælst hefur áður í vötnum á svæðinu og styrksgildin eru einnig keimlík því sem mælst hefur í öðrum grunnum vötnum á landinu. Þá benda niðurstöður rannsókna á smádýralífi í vötnunum til að ekki sé um skammtímaáhrif að ræða á vatnalífríkið af völdum brunans. Samanburður á gögnum frá 1997 og 2006 úr Sauravatni sem er á brunnu svæði bendir heldur ekki til þess að ástand vatnanna hafi breyst m.t.t. helstu tegunda og lífveruhópa. Enda þótt ekki líti út fyrir að áhrifa Mýraelda hafi gætt á smádýralífríki í vötnunum, a.m.k. ekki til skamms tíma litið, kom fram munur í dýralífi milli vatna á óbrunnu svæði og brunnu. Þannig veiddist mun meira af hornsílum í vötnum á brunnu svæði, en fjöldi krabbadýra var hins vegar öllu minni en í vötnum á óbrunnu svæði.

Rannsóknirnar kynntar í Borgarbyggð

annsóknirnar voru kynntar heimamönnum á sérstökum fundi þann 28. mars 2007 í Lyngbrekku á Mýrum, en Rótarýklúbbur Borgarness og Borgarbyggð stóðu fyrir fundinum sem var vel sóttur. Á fundinum var dreift sérstöku hefti með greinum um Mýraelda frá Fræðaþingi landbúnaðarins 2007, en þar er að finna miklar upplýsingar um rannsóknirnar og fyrstu áhrif eldanna á lífríki á Mýrum.

Þeir sem vilja fræðast nánar um Mýraelda og niðurstöður rannsóknanna geta sótt efnið sem pdf skjal (6,8 MB) eða í einstökum köflum hér á vefnum:

EFNISYFIRLIT og leiðbeiningar um tilvitnanir í greinarnar