Er vorið komið?


Hrossafluga á húsvegg í Hafnarfirði 17. mars 2007. Ljósm. Erling Ólafsson.

Algengast er að tegund þessi fari að sjást um miðjan maí þó nokkur tilfelli séu þekkt frá því fyrr í mánuðinum. Vorið 2004 fann skordýrafræðingurinn hrossaflugu þann 21. apríl og hafði hún aldrei áður fundist svo snemma. Metið var því slegið hressilega þetta vorið. Er þetta eitt merkið um hlýnandi loftslag?

Hrossaflugur eru flestum kunnar, en ekki vita allir að hérlendis lifa fjórar tegundir þeirra. Aðeins tvær tegundir mæta okkur þó í görðum okkar á höfuðborgarsvæðinu, sú sem hér er til umfjöllunar og kallast einfaldlega hrossafluga (Tipula rufina) og trippafluga (Tipula confusa). Aðrar tegundir eru kaplafluga (Prionocera turcica) sem finnst í votlendi víða um land og folafluga (Tipula paludosa) sem fannst fyrst í Hveragerði um aldamótin síðustu og er orðin algeng þar á skömmum tíma.

Allar eru tegundirnar stórar og lappalangar. Hrossafluga og trippafluga eru nauðalíkar tegundir. Þær skipta með sér sumrinu. Hrossaflugan er á ferli fyrrihluta sumars en upp úr miðjum júlí tekur trippaflugan við og sést fram á haust. Lirfur hrossaflugna eru í rökum jarðvegi og rotnandi plöntuleifum, í safnhaugum og laufhrúgum, og eiga virkan þátt í niðurbroti þeirra.