Hörður Kristinsson og grasafræðirannsóknir á Íslandi

27.11.2007
Málþing til heiðurs Herði Kristinssyni, grasafræðingi, var haldið á Akureyri á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands föstudaginn 23. nóvember síðastliðinn. Málþingið var vel sótt af sérfræðingum, samstarfsmönnum og áhugafólki um grasafræði, en Hörður hefur stundað grasafræðirannsóknir á Íslandi í hartnær hálfa öld.
Eyþór Einarsson, grasafræðingur og samstarfsmaður Harðar á Náttúrufræðistofnun, rakti sögu grasafræðirannsókna á Íslandi. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.


Til umfjöllunar á málþinginu var íslensk grasafræði og var fyrri hluti þess helgaður ólíkum hópum plantna og sveppa sem Hörður hefur rannsakað. Eyþór Einarsson, grasafræðingur, reið á vaðið og fór yfir sögu grasafræðirannsókna á Íslandi. Að loknu yfirliti Eyþórs fjallaði Gróa Valgerður Ingimundardóttir um stöðuna í rannsóknum á háplöntum Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fjallaði um stöðu svepparannsókna og Starri Heiðmarsson um stöðu flétturannsókna.

Í síðari hluta málþingsins fjallaði Elín Gunnlaugsdóttir um rannsóknir sínar á samfélögum strandgróðurs, Þóra Ellen Þórhallsdóttir íhugaði stöðu íslenskrar háplöntuflóru miðað við aðrar sambærilegar eyjar og Eva Þorvaldsdóttir sagði frá varðveislu sjaldgæfra íslenskra plantna í grasagarðinum í Laugardal. Í lok málþingsins fór Bjarni E. Guðleifsson orðum um feril Harðar og naut þar bréfs sem borist hafði frá Helga Hallgrímssyni þar sem hann rekur samstarf sitt og Harðar í rúma hálfa öld.

Málþingið var vel sótt og voru rúmlega 50 þátttakendur sem íhuguðu grasafræðileg málefni þennan eftirmiðdag á KEA hótelinu.

Bjarni E. Guðleifsson og Gróa Valgerður Gestir á málþingi um grasafræðirannsóknir á Íslandi
Bjarni E. Guðleifsson fór yfir náms- og starfsferil Harðar og Gróa Valgerður tók að sér lestur á sendibréfi frá Helga Hallgrímssyni. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. Rúmlega 50 gestir sóttu málþingið til heiðurs Herði Kristinssyni, grasafræðingi, 23. nóvember á Akureyri. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.