Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands kosinn forseti Bernarsamningsins

29.11.2007

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, var í dag kosinn forseti Bernarsamningsins um verndun villtra plantna, dýra og lífsvæða í Evrópu á aðildarríkjafundi samningsins í Strasborg í Frakklandi. Bernarsamningurinn er einn helsti samningur Evrópu á sviði náttúruverndar og undirstaða náttúruverndarlöggjafar margra Evrópuþjóða. Tæplega fimmtíu ríki í Evrópu og Norður-Afríku eru aðilar að samningnum.

Forseti Bernarsamningsins stýrir starfsemi hans og aðildarríkjafundum. Jón Gunnar var varaforseti samningsins í þrjú ár en er nú fyrsti Íslendingurinn sem kosinn er forseti hans. Fráfarandi forseti er Véronique Herrenschmidt frá Frakklandi. Jan Plesnik frá Tékklandi gegnir embætti varaforseta.

Vægi Bernarsamningsins mun aukast á næstu misserum þar sem hann er einn þeirra svæðisbundnu samninga sem notaðir verða til að framfylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og til að fjalla um og bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga á líffræðilega fjölbreytni.

Nánar um Bernarsamninginn.