Vorið er tími sinuelda - tvö ár liðin frá Mýraeldum

Sinueldarnir miklu sem brunnu á Mýrum 30. mars – 1. apríl 2006 kviknuðu í kjölfar langvarandi þurraþræsings. Nú þegar tvö ár eru liðin frá Mýraeldum koma heimamenn á Mýrum saman og efna til hátíðarinnar Eftir eld í Lyngbrekku. Þar gefst m.a. færi á að kynna sér nýjustu niðurstöður rannsókna á áhrifum eldanna á lífríki Mýra.

 


Brunasvæðið á Mýrum á öðru sumri eftir elda. Gróskuleg vallhæra og klófífa eru hér ríkjandi í gróðri og hafa náð sér vel á strik en gulvíðirinn á langt í land. Ljósm. Erling Ólafsson, 20. júní 2007.

Framvinda á öðru sumri eftir elda

Rannsóknir á áhrifum Mýraelda hófust í kjölfar eldanna sumarið 2006 og hafa niðurstöður þeirra þegar verið kynntar. Sumarið 2007 var rannsóknum á svæðinu haldið áfram og birtust fyrstu niðurstöður þeirra á Fræðaþingi landbúnaðarins 2008 þar sem greint var frá athugunum á fuglum, gróðri og vötnum. Það eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Landbúnaðarháskóli Íslands sem standa að rannsóknunum.

 

 

 

 

 

 


Kvistgróður fór illa í eldunum á Mýrum. Hér er fjalldrapi að vaxa upp af rót að nýju. Ljósm. Erling Ólafsson, 22. júní 2007.

Rannsóknir á fuglum á Mýrum sumarið 2007 sýna að þéttleiki mófugla var meiri á brunalandinu en óbrunnu samanburðarlandi eins og fram kom í kjölfar eldanna sumarið 2006. Þessi munur var mest sláandi fyrir þúfutittling og hrossagauk sem algengastir eru á svæðinu. Rannsóknir á gróðri 2007 sýna að plöntur hafa jafnað sig talsvert eftir brunann og stefnir gróðurfar til fyrra horfs. Í ljós kom að nokkrar tegundir, einkanlega beitilyng, krækilyng, mýrelfting og vallhæra höfðu aukið útbreiðslu sína verulega á brunna landinu frá sumrinu 2006. Rannsóknir á vötnum 2007 benda til að eldarnir hafi ekki haft umtalsverð áhrif á vatnsgæði. Áhrif á vötnin voru hins vegar merkjanleg og komu m.a. fram í því að hærri rafleiðni og styrkur katjóna mældist í vötnum innan brennda svæðisins en utan þess.

 

 

Þeir sem vilja fræðast nánar um nýjustu niðurstöður rannsókna á Mýraeldum geta sótt greinar frá Fræðaþingi landbúnaðarins 2008 sem pdf skjal hér á heimasíðunni (0,9 MB), en titlar þeirra og höfundar eru eftirfarandi:

Áhrif Mýraelda á fugla. Guðmundur A. Guðmundsson, Kristinn H. Skarphéðinsson og Freydís Vigfúsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands.

Áhrif Mýraelda vorið 2006 á eðlis- og efnaþætti vatns sumarið 2007. Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson, Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Endurnýjun plantna eftir sinubrunann á Mýrum 2006. Járngerður Grétarsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Frekari fróðleik um Mýraelda á heimasíðu NÍ er að finna hér.