Yfirlit frjómælinga sumarið 2008


Karlreklar birkis. Ljósm. Margrét Hallsdóttir.

Reykjavík

Heildarfjöldi frjókorna í Reykjavík varð 4724; 2097 grasfrjó, 528 birkifrjó, 345 asparfrjó og 225 súrufrjó. Frjóríkustu mánuðir sumarsins voru júní og júlí með 1638 og 1637 frjókorn í rúmmetra lofts en september var eins og oft áður sá rýrasti með 37. Hann var jafnframt sá rýrasti af öllum septembermánuðum til þessa. Maí, júní og júlí voru allir yfir meðallagi, apríl var í tæpu meðallagi en ágúst og september hins vegar varla hálfdrættingar á meðallagið. Sumarið 2008 skipar sér í hóp sex sumra með heildarfrjómagn yfir 4400. Hæsta samanlögð frjótala kom 25. júlí þegar 322 frjókorn reyndust í rúmmetranum, en á þeim tíma voru grasfrjó í hámarki.

Samkvæmt veðurfarsyfirlitum Veðurstofunnar var meðalhiti allt mælitímabilið (apríl–september) yfir meðallagi, sem átti sinn þátt í mikilli grósku alls gróðurs og þar með miklu frjósumri. Þá reyndust bæði maí og þó einkum júní þurrari en í meðalári, en þurrviðri skapa góð skilyrði fyrir frjódreifingu.

 

Akureyri

Heildarfjöldi frjókorna varð 2194 í rúmmetra lofts sem er 22% undir meðallagi áranna 1998–2007. Og voru grasfrjó algengust. Þegar á heildina er litið reyndist maí frjóríkasti mánuður sumarsins með 771 frjó í rúmmetra lofts. Næstur í fjölda var júlí með 646. Júní og ágúst voru áþekkir með 359 og 366 frjókorn. Það hefur ekki gerst áður að jafnmörg frjókorn hafi mælst í maí, en í ár blómguðust bæði ösp og birki í maí og hámark beggja tegunda féll í þeim mánuði auk þess sem hámark birkisins var óvenju snarpt og hátt. Sumarið 2008 skipar sér í hóp fimm sumra með heildarfrjómagn um eða undir 2200.

Samkvæmt veðurfarsyfirlitum Veðurstofunnar var meðalhiti í apríl undir meðallagi og í júní reyndist hann í meðallagi en aðra mánuði mælitímans var hiti vel yfir meðallagi. Þá voru apríl, ágúst og september þurrari en í meðalári, en í maí, júní og júlí var úrkoma lítið eitt yfir meðallagi. Fyrir frjódreifingu skiptir heildarúrkoman ekki meginmáli heldur dreifing úrkomunnar yfir sólarhringinn og það á hvaða formi hún er.

 

Fréttatilkynningar

Akureyri

Reykjavík

 

Frjógildra

Frjókorn
Frjógildra. Ljósm. Margrét Hallsdóttir. Frjókorn sjást ekki með berum augum þar sem þau eru aðeins 0,1 til 0,01 mm að stærð. Ljósm. Margrét Hallsdóttir.

 

Frjómælingar á Íslandi

Frá árinu 1997 hefur Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt Veðurstofunni haft veg og vanda af frjómælingum á Íslandi. Þær hófust í Reykjavík vorið 1988 fyrir tilstyrk Vísindasjóðs, Astma- og ofnæmisfélagsins og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. SÍBS styrkti frjómælingar í fjölmörg ár. Vorið 1998 fékkst styrkur frá Rannís til kaupa á nýrri frjógildru og hófust þá mælingar einnig á Akureyri.