Frjótölur aftur eðlilegar

Evrópska birkifrjógusan sem gekk yfir landið 7. til 11. maí s.l. er nú liðin hjá. Frjótala birkis er aftur orðin eðlileg miðað við árstíma, 2 til 3, en komst hæst í 456 í Reykjavík þann 9. maí. Evrópska birkifrjóið barst einnig til Akureyrar, þar sem frjótalan fór yfir 20 þann 8. maí (eftir er að vinna úr gögnum dagana á undan).

Mjög sérstakt ástand ríkti í lofthjúpnum og víðar í Evrópu voru slegin met í þéttleika frjókorna í loftinu, t.d. í Kaupmannahöfn þar sem frjótalan fór yfir 4000. Frá Finnlandi (Ouluborg) herma fréttir að gangstéttir hafi litast gular af frjófallinu. Gulleitt birkifrjóskýið yfir Evrópu sást vel á myndum frá veðurtunglum EUMETSAT, Evrópsku veðurfræðistofnunarinnar.

Fram undan er blómgunartími íslenska birkisins, og er það víða komið með hangandi rekla á höfuðborgarsvæðinu. Þess er þá vart langt að bíða, að frjókorn dreifist út í loftið á nýjan leik. Fram til þessa hefur frjótala birkis orðið hæst 142, en það var 2. júní 1991 og svo aftur 13 árum síðar eða 23. maí 2003. Þess má geta að meðalfjöldi birkifrjóa sem að jafnaði sleppur út í loftið vor hvert hér á Reykjavíkursvæðinu er um 340 frjó í rúmmetra lofts. Spönnin er frá 26, sem mældist vorið 1989, upp í 1103 vorið 2003. Þannig að breytileikinn getur verið mikill háð því m.a. hvort veður helst þurrt á meðan birkið er í blóma, en hitastig hefur áhrif á það hversu mikið berst út í loftið.

Veðurstofan hefur látið reikna uppruna evrópska loftmassans sex daga aftur í tímann og hafa þær upplýsingar verið tengdar frjómælingum NÍ á myndrænan hátt.



Verið velkomin á Hrafnaþing!

Frjókornamælingar í maí 2006. Smellið á myndina til að stækka hana.

Sjá einnig frétt frá 12. maí s.l.