Birkikjarrið plægt


Horft til suðausturs í átt að Biskupstungnabraut. Plægðar rásir sjást greinilega í kvöldsólinni. Ljósm. Sigmundur Einarsson.

Í ljósi þess að náttúrlegir birkiskógar landsins hafa átt undir högg að sækja hin síðari ár, m.a. vegna ásóknar í lönd undir sumarhús, er dapurlegt til þess að vita að enn í dag skuli það vera á dagskrá að skipta íslenskum birkiskógi út fyrir aðfluttan barrskóg. Sú var tíðin að íslenskir skógræktarmenn töldu það mikinn löst á landi voru að það skyldi ekki vera skógi vaxið líkt og Noregur og Svíþjóð. Ísland var skammarlega nakið og ljótt. Mikið skógræktarátak eftir miðja síðustu öld fólst m.a. í því að plægja rásir í fallegustu birkiskóga Suðurlands, í Haukadal og Þjórsárdal, og planta þar röndóttum barrskógi.

Sem betur fer hefur orðið á þessu nokkur breyting. Enn höfum við Íslendingar þó ekki borið gæfu til að vernda birkiskóga með lögum en í 3. mgr. 39. gr. laga um náttúruvernd nr. 1999/44, sem fjallar um vernd skóga og annarra gróðursamfélaga, segir: Umhverfisstofnun skal ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar. Þetta er eina ákvæðið í íslenskum lögum um verndun náttúrulegra birkiskóga.

Í skýrslu umhverfisráðuneytisins um vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga segir m.a. að Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Íslands og landshlutabundin skógræktarverkefni hafi mótað með sér stefnu um að ekki verði framar gróðursettar innfluttar trjátegundir í náttúrulega birkiskóga. Einnig eru reglur um náttúrulega birkiskógana í leiðbeingum Skógræktarfélags Íslands um nýræktun skóga ágætlega skýrar. Þar segir m.a.: Birkiskógar þekja einungis um 1,2% landsins í dag. Þeir eru eitt mest raskaða gróðurlendi landsins og er það mikilvægt viðfangsefni náttúruverndar í landinu í framtíðinni að tryggja að þeim verði ekki raskað frekar og skilyrði sköpuð til þess að þeir geti endurnýjað sig og breiðst úr. Almenna reglan varðandi skógrækt er sú að gróðursetja ekki aðrar trjátegundir inn í náttúruskógana. Það er eitt meginmarkmið skógræktar í landinu að vernda og auka við birkiskógana.

Ekki er fyllilega ljóst hvað til stendur að gera í birkikjarrinu í Grímsnesi en meðfylgjandi myndir tala sínu máli. Þær voru teknar 25. og 26. apríl 2009.

birkikjarr plægt birkikjarr plægt
Horft til norðvesturs af Biskupstungnabraut. Búrfell fyrir miðri mynd. Ljósm. Sigmundur Einarsson. Nærmynd af birkikjarri og plægðum rásum við Biskupstungnabraut. Ljósm. Sigmundur Einarsson.