Náttúrufræðistofnun Íslands og Hið íslenska náttúrufræðifélag 120 ára í dag

Megintilgangur Náttúrugripasafnsins og félagsins við stofnun var söfnun náttúrugripa, en fundargerðarbók segir svo frá:

„...að eiga öldungis fullkomið safn af öllum þeim náttúrugripum, sem finnast í þeirra eigin landi, til þess að hafa það allt á einum stað, svo að hver maður,...er vill kynna sjer náttúru landsins eigi greiðan aðgang að því.“

Frá því að Náttúrugripasafnið var stofnsett árið 1889 og til dagsins í dag hafa ýmsar breytingar orðið á rekstri þess. Safnið var í eigu Hins íslenska náttúrufræðifélags og stóðu félagsgjöld, ásamt styrkjum frá ríkinu og ýmsum aðilum undir rekstri þess.

Náttúrugripasafnið var lengi á hrakhólum og flutti sex sinnum fyrstu 18 árin, en árið 1908 fékk það inni í Safnahúsinu við Hverfisgötu (núverandi Þjóðmenningarhúsi), þar sem sýningarsafnið átti sitt blómaskeið. Þegar Náttúrugripasafnið flutti í Safnahúsið þurfti félagið ekki lengur að greiða leigu fyrir húsnæði. Ríkið borgaði laun starfsmanna og studdi við starfsemina, en að lokum fór þó svo að félagið hafði hvorki aðstöðu né bolmagn til að halda úti rekstri safnsins. Fóru þá forsvarsmenn félagsins fram á það við íslenska ríkið að það myndi auka styrk til félagsins eða að öðrum kosti taka við safninu. Var seinni kosturinn valinn og safnið afhent ríkinu í upphafi árs 1947, ásamt digrum byggingarsjóði.

 

Náttúrugripasafnið í Þjóðmenningarhúsi Benedikt Gröndal forstöðumaður HÍN 1889 - 1900
Séð yfir hluta af sýningarsal Náttúrugripasafnsins eins og hann leit út á fyrstu tímum safnsins í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Salurinn var opnaður árið 1908 og þarna má sjá ýmsa náttúrugripi, bæði úr jurta- og dýraríkinu. Ljósm. August Hesselbo, 1914. Benedikt Gröndal var fyrsti formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og fyrsti forstöðumaður Náttúrugripasafnsins.

Fyrstu lög um safnið voru sett 1951 og það nefnt Náttúrugripasafn Íslands. Með nýjum lögum árið 1965 var nafni safnsins breytt í Náttúrufræðistofnun Íslands og kveðið á um skyldu þess „að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru landsins“. Þar með var í auknum mæli farið að leggja áherslu á rannsóknaþátt stofnunarinnar og ekki aðeins á sýningarþáttinn.

Náttúrufræðistofnun heyrði í áratugi undir menntamálaráðuneytið en færðist yfir til umhverfisráðuneytis við stofnun þess árið 1990. Árið 1992 voru ný lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur sett. Samkvæmt þeim var opnað fyrir aðkomu fleiri aðila að sýningarstarfseminni, en þá höfðu Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands lýst áhuga á að taka þátt í rekstri sýningarsafnsins.

Með safnalögum 2001 var sýningarþáttur Náttúrugripasafnsins færður í nýtt höfuðsafn, Náttúruminjasafn Íslands, undir menntamálaráðuneyti. Lög um Náttúruminjasafn Íslands voru sett árið 2007 og í framhaldi af því var sýningarsölum Náttúrufræðistofnunar að Hlemmi lokað 1. apríl 2008. Nýir sýningarsalir verða opnaðir á vegum hins nýja safns, en rannsókna- og vísindagripir verða áfram í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands.

 

Steindór Steindórsson og Sigrún Jónsdóttir Margæsir merktar með gervihnattasendum
Steindór Steindórsson grasafræðingur og Sigrún Jónsdóttir kortagerðarkona í rannsóknarleiðangri árið 1965. Margæsir merktar með gervihnattasendum á Álftanesi 2007. Graham Mcelwaine, Kendrew Colhoun, Robin Ward, Guðmundur A. Guðmundsson og Hugh Thurgate með þrjá merkta gassa.

 

Hugað að klappadúnurt, nýrri tegund í Surtsey Steinasafn
Erling Ólafsson, skordýrafræðingur, og Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur, í Surtsey að huga að klappadúnurt, nýrri tegund í eynni. Ljósm. Borgþór Magnússon 2007. Kristján Jónasson, jarðfræðingur, hugar að sýnum í jarðfræðisafni stofnunarinnar. Ljósm. Kristján Jónasson.

Hið íslenska náttúrufræðifélag er enn starfrækt en tilgangur félagsins er „að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu sem snertir náttúrufræði“ (www.hin.is).

Þess má geta að í Þjóðmenningarhúsinu stendur yfir sýning Náttúrufræðistofnunar „Að spyrja Náttúruna – Saga Náttúrugripasafnsins“ þar sem saga safnsins er rakin og ýmsir munir og gripir eru til sýnis, þ.á m. geirfugl, tígrisdýr, gróðursýni, letidýr og fálki.


Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands á ársfundi stofnunarinnar á Akureyri árið 2008. Nokkra starfsmenn vantar á myndina. Ljósm. Kjartan Birgisson.